Myndband af fararstjóra löðrunga nemanda á Hótel Örk í Hveragerði hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla undanfarið. Fararstjórinn hefur verið kærður til lögreglu vegna atviksins.
Um er að ræða hópferð bresks kvennaskóla, Harris Girls Academy sem er í bænum Beckingham í Kent í suðurhluta Englands, til Íslands. Hópurinn kom heim til Bretlands á laugardag. Breska blaðið the Mirror greindi frá atvikinu í gær.
Í myndbandinu sést fullorðin hvít manneskja löðrunga ungan hörundsdökkan nemanda. Upphaflega var það hópur sem kallast The Black Child Agenda sem deildi myndbandinu. Sá hópur sagði að myndbandið væri tekið upp á Hótel Örk.
Til að byrja með var sagt að gerandinn væri kennari við skólann en skólinn hefur leiðrétt það. Þetta hafi verið fararstjóri hóps úr stúlknaskólanum í Íslandsferð.
Harris Academy Bromley we hope this woman was arrested? This is assault, she needs to be sacked and never work with or near young people again. We understand she is the tour guide on your trip, but something needs to be done. pic.twitter.com/z7XMMoA1vX
— Cherylphoenix (@Cherylphoenix99) October 15, 2023
Í myndbandinu heyrst nemandinn segja: „Vinsamlegast ekki koma nærri mér,“ en þá löðrungar fararstjórinn hann. Nemandinn hleypur svo burt og fararstjórinn eltir.
Myndbandið hefur vakið mikla reiði og hefur verið kallað eftir því að fararstjórinn verði rekinn, handtekinn og ákærður fyrir líkamsárás.
„Ég trúi ekki því sem ég er að sjá með mínum eigin augum og heyra með mínum eigin eyrum,“ sagði einn hneykslaður netverji. „Skólinn þarf að bregðast við þessu og gefa út yfirlýsingu vegna þessarar óásættanlegu hegðunar,“ sagði annar.
Seinni partinn í gær gaf Harris Girls Academy út yfirlýsingu vegna málsins. Er hún eftirfarandi:
„Sá fullorðni einstaklingur sem birtist í myndbandinu, sem var tekið í skólaferðalagi á Íslandi, er EKKI starfsmaður okkar. Börnin eru örugg og allt í lagi með þau og við höfum kært málið til lögreglu sem er að taka málið alvarlega. Við deilum hneykslun ykkar og gerum allt til að styðja við lögreglurannsóknina.“
Að sögn bresku lögreglunnar verður lögreglurannsóknin gerð á Íslandi.