71 árs karlmaður, Joseph Czuba, er í haldi lögreglu eftir að hafa verið handtekinn á vettvangi.
Flest bendir til þess að um hreinan hatursglæp hafi verið að ræða og maðurinn hafi beint spjótum sínum að þeim tveimur vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem allt er á suðupunkti á milli Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna. Mæðginin eru múslimar og af palestínsku bergi brotin en móðirin flutti til Bandaríkjanna fyrir tólf árum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tjáði sig um árásina í gærkvöldi og fordæmdi hana harðlega. Ekkert pláss sé fyrir hatur af þessu tagi í Bandaríkjunum og Bandaríkjamenn þyrftu að standa saman gegn íslamófóbíu.
Czuba hefur verið kærður fyrir morð, morðtilraun, hatursglæp og alvarlega líkamsárás. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Í frétt BBC kemur fram að mæðginin hafi verið leigjendur hjá Czuba. Móðirin hringdi í lögreglu á laugardagsmorgun þar sem hún tjáði henni að Czuba væri að ráðast að þeim vopnaður hníf. Þegar lögregla kom á vettvang lágu þau bæði í blóði sínu á gólfi íbúðarinnar. Pilturinn, sem hlaut 26 stungusár, var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.