Lögfræðingur að nafni Coun Andrew Walters hefur í þrígang lent í að verða strandaglópur vegna heimssögulegra viðburða. Hann var fastur ásamt eiginkonu sinni og átta börnum í Jerúsalem, höfuðborg Ísraels, eftir að átök brutust út á milli Hamas liða og Ísraelshers þann 7. október.
Walters er Breti, búsettur í Salford sem er bær í útjaðri Manchester borgar. Auk þess að vera lögfræðingur gegnir hann stöðu bæjarfulltrúa í Salford. Walters og fjölskylda hans eru gyðingar.
Blaðið Manchester Evening News greinir frá því að fjölskyldan hafi flogið fyrir skemmstu til Ísrael til að vera viðstödd hátíðina Yom Kippur. En í Ísrael búa tengdaforeldrar hans.
„Það lítur út fyrir að ég komist ekki aftur heim,“ sagði Walters við blaðið á fimmtudag. Fluginu hans til Verona á Ítalíu hafði þá verið aflýst en þaðan ætlaði hann að fljúga heim til Bretlands.
Fjöldi útlendinga hafa átt í erfiðleikum með að komast frá Ísrael eftir að átökin hófust. Þar á meðal um 60 þúsund Bretar. Íslensk stjórnvöld sendu vél til Jórdaníu til að sækja um 120 Íslendinga sem voru í landinu. En þeir þurftu að ganga yfir landamærin.
Það sem gerir sögu Walters athyglisverða er að hann hefur í tvígang áður orðið strandaglópur vegna heimssögulegra atburða.
Í fyrra skiptið var það vegna árásanna á tvíburaturnana í New York þann 11. september árið 2001. En þá lá allt flug í Bandaríkjunum niðri um tíma. Í seinna skiptið mátti Walters sitja fastur vegna móðunnar frá eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. En flugumferð í Evrópu raskaðist mjög vegna hennar.
„Ég er búinn að vera mjög óheppinn með flug,“ sagði Walters.
Walters hefur séð fjölda flugskeyta fljúga yfir íbúð tengdaforeldra sinna. „Fólk er að lenda í vandræðum með að komast úr landinu og þurfa oft að bíða í meira en 10 klukkutíma á flugvellinum, sem hljómar hræðilega en ég er tilbúinn að gera það,“ sagði hann.
Lýsti hann ástandinu í landinu sem hryllingi.
„Það sem ég er búinn að sjá er hræðilegt,“ sagði Walters. „Flugskeyti fljúga hérna yfir. Þetta er eins og mamma mín lýsti loftárásunum í seinni heimsstyrjöld. Þetta er hryllilegt.“