Netverjar hafa tekið til máls eftir tilkynningu ríkisstjórnarflokkanna um að Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir hafi stólaskipti í fjármála og utanríkisráðuneytunum. Sitt sýnist hverjum og er mörgum tíðrætt um að Bjarni sé í raun ekki að axla ábyrgð á bankasölunni.
„Eins og ágætur maður sagði um daginn: Ef maður er tekinn fullur á Benz, má hann þá keyra Skóda?“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku.
„Virkilega gaman að sjá Bjarna axla þessa miklu ábyrgð og taka að sér utanríkisráðuneytið á þessum óvissutímum. Segir bara takk og ég hlakka til næstu stólaskipta. Skjótum á að það gerist áður en janúar er liðinn,“ segir Sigurður Orri Kristjánsson fyrrverandi fjölmiðlamaður sem nýlega tók við stöðu verkefnastjóra hjá Viðreisn.
Kári Sturluson, tónleikahaldari man hvar hann var.
„Muniði hvar þið voruð þegar Bjarni varð utanríkisráðherra eftir að hafa sagt af sér sem fjármálaráðherra nokkrum dögum áður? Ég var uppí sófa að horfa á The Real Rob á Netflix,“ segir hann.
„Bjarni er fyrstur manna til að axla ábyrgð með þeim hætti að neita sér um laugardagsnammið … og skipta yfir í bragðaref í staðinn,“ segir blaðamaðurinn Jakob Bjarnar í tvíbentri færslu.
„Teflon maðurinn er í boði VG. Fínt að hafa það í huga,“ segir Teitur Atlason fyrrverandi varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Sara Oskarsson, listakona og fyrrverandi þingmaður Pírata, setur sig í spor Bjarna. „“Ég er ómissandi, munið það. Mig langar að fara oftar til útlanda. Ég ætla að halda áfram að selja vinum og vandamönnum ríkiseigur (by proxy). Mér líður vel í hjartanu.” BB.“
Karl Sigurðsson, liðsmaður Baggalúts, er maður að meiri. „Í dag er góður dagur til að vera maður að meiri. #MaðurAðMeiri.“
„Ahh Bjarni ætlar að axla ábyrgð með því að halda áfram að sitja í ríkisstjórninni sem hann myndaði…ég skil. Þannig ábyrgð,“ segir Viktor Orri Valgarðsson fyrrverandi varaþingmaður Pírata.
Flokksbróðir hans og fyrrverandi þingmaður, Smári McCarthy bendir á staðreynd um húsgögn.
„Bjarni heldur sem sagt ráðherrastólnum sínum. Bókstaflega sama stól, þótt embættið breytist, því stólunum er úthlutað samkvæmt starfsaldri í ríkisstjórn. Aldrei áður hefur afsögn þýtt jafn lítið,“ segir hann.
Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og bloggari, setur fram kenningu.
„Pólitíska plottið mikla reyndist bara vera það sem allir bjuggust við. Bjarni hefur stólaskipti við Þórdísi Kolbrúnu og í staðinn fyrir að pabbi Bjarna geti núna tekið þátt í útboðum Íslandsbanka, þá getur bróðir hennar það ekki. Munum það, þegar næsta útboð fer fram,“ segir Marinó.
Þingmenn tjá sig líka, um stólaskiptin og stjórnarsamstarfið almennt.
„Segir mikla sögu um hversu sundruð ríkisstjórnin er að það þurfi sérstakan blaðamannafund til að lýsa því yfir að þau geti unnið saman. Og að það þurfi síðan vinnufund til að reyna að finna hvaða erindi stjórnin á við fólkið í landinu,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar.
Flokksbróðir hennar Guðbrandur Einarsson er einnig harðorður.
„Siðbótin í stjórnarráðinu felst í því að færa sig yfir á annan stól. Allir hættir að tala um lögbrotið heldur er aðalspennan fólgin í því hver fær hvaða stól,“ segir hann en slær líka á létta strengi. „Held að ástæðuna fyrir því að Sigurði Inga líði betur núna en margar undanfarnar vikur sé að finna í því að mjaðmaskiptaaðgerðin sé farin að virka.“
„Ég kallaði þetta óheiðarlegt PR stunt fyrir helgi og ég stend við þau orð,“ segir Halldóra Mogensen þingmaður Pírata og bætir við spurningu. „BTW. Hvaða pólitíski stöðugleiki felst í því að hafa ráðherra í ríkisstjórn sem 70% þjóðar treystir ekki í ráðherraembætti?“