„Þetta er mjög svekkjandi. Mér fannst við ferskir fram á við, sérstaklega svona fyrstu 35 mínúturnar. Við sköpuðum færi til að skora annað markið. Það var gríðarlega svekkjandi og lélegt hjá okkur að klára þetta ekki,“ segir Gylfi við 433.is.
Gylfi var að spila sinn fyrsta landsleik síðan í nóvember 2020 og var að vonum glaður með að snúa aftur á Laugardalsvöll í landsliðsbúningnum. Móttökurnar skemmdu þá ekki fyrir.
„Þetta var auðvitað frábært og yndislegt, geggjaðar móttökur. Það er auðvitað gaman að vera kominn aftur. En það er svekkjandi að kvöldið endi svona,“ segir Gylfi.
„Það er fátt skemmtilegra en að spila hér á kvöldin undir flóðljósunum,“ sagði Gylfi að endingu, en ítarlegra viðtal má nálgast í spilaranum.