fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Hatrömmu ættardeilurnar í Dalabyggð – Stefna sjálfum sér og stórfjölskyldunni til að „höggva á hnútinn í eitt skiptið fyrir öll“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 13. október 2023 17:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hatrammar fjölskylduerjur hafa lengi átt sér stað í Dalabyggð, en málið tengist inn í stjórnarráðið þar sem um er að ræða fjölskyldu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Ljósi er varpað á eina hlið þessa erfiða deilumáls í hlaðvarpi sem þrjár systur, sem tengjast Ásmundi ættarböndum, standa að baki. Hlaðvarpið kallast Lömbin þagna ekki og þar segjast systurnar svipta hulunni af 15 ára ættardeilum ráðherra sem meðal annars hafi falið í sér ofsóknir, skemmdarverk, innbrot og andlegt ofbeldi.

Deilurnar megi rekja til jarðarinnar Lambeyra sem erfðist til átta systkina eftir að faðir þeirra lést. Eitt systkinanna, Daði Einarsson, hafi svo veðsett jörðina í topp og hafi hún svo verið seld á nauðungarsölu. Þar keyptu nokkur systkinin jörðina í sameiningu í nafni fyrirtækisins Dön ehf.

Föðurbræður systranna, Valdimar Einarsson og Daði Einarsson hafa nú svarað hlaðvarpinu með því að opna vefsíðuna hrutar.online þar sem þeir segja sína hlið. Reka þeir þar að Lambeyrar hafi upprunalega verið spilda sem var skipt úr stærri jörð, Dönustöðum, sem sé í eigu stórfjölskyldunnar. Um eignarhald á þeirri jörð hafi verið deilt í rúma hálfa öld, en þinglýstir eigendur eru í dag rúmlega tuttugu talsins.

Segja má að málið hafi vakið töluverða athygli og skiptist fólk í margar fylkingar. Sumir taka undir málstað Daða og Valdimars, aðrir undir málflutning Skúladætra og enn aðrir telja hér um fjölskylduharmleik að ræða sem eigi ekkert erindi í opinbera umræðu.

Vilja viðurkenningu á eignarhaldi

Ekkert lát er á deilunum en í dag birtist í Lögbirtingablaðinu stefna á hendur eigendum Dönustaða í nafni Dön ehf. sem krefst þess að viðurkenndur verði beinn eignaréttur félagsins, sem eiganda Lambeyra, á fjórðungi óskipts lands Dönustaða. Eins að tiltekin landamerki úrskipts land Lambeyra verði viðurkennt með nánar tilgreindum hætti og að viðurkenndi verður beinn eignarréttur Danar ehf. að tveimur túnspildum.

Þar sem eigendur Danar ehf. eru meðal eigenda Dönustaða eru því eigendur félagsins í raun að stefna sér sjálfum, ásamt öðrum. Þar er rakið að þegar Lambeyrum var skipt úr Dönustöðum hafi átt að fylgja jörðinni fjórðungs eignarhlutdeild í Dönustöðum. Eins hafi átt að fylgja helmingur í lax- og silungsveiðirétti Dönustaða. Þegar faðir systkinanna hafi stofnað einkahlutafélag um rekstur Lambeyra hafi í stofnskrá komið fram að meðal eigna væri fjórðungur af landi Dönustaða. Þegar Daði Einarsson hafi veðsett Lambeyrar hafi hann veðsett jörðina, ásamt fasteignum og ásamt fjórðungi jarðarinnar Dönustaða. Dön ehf. hafi keypt jörðina á nauðungarsölu og eigi því tilkall til fjórðungs Dönustaða, en það hlutfall hafi fylgt Lambeyrum frá öndverðu.

Deilurnar langar og hatrammar

Segir í stefnu:

„Allt frá andláti Einars hefur ríkt ósætti meðal erfingja hans, sem meðal annars leiddi til þess að bú hans var tekið til opinberra skipta, eins og fyrr var getið, en allir erfingjar aðrir en Valdimar og Daði Einarssynir töldu ýmsar gerðir þeirra bræðra hafa rýrt eignir búsins verulega.

Ósættið hefur færst mjög í aukana eftir að stefnandi keypti jörðina Lambeyrar, en stefnandi er í eigu Dönustaða ehf. að 40% leyti, sem er félag í eigu Skúla Einarssonar. […] Frá því að Lambeyrar voru seldar nauðungarsölu hafa þeir bræður Valdimar og Daði Einarssynir, troðið illsakir við systkini sín við hvert tækifæri sem gefist hefur. Þeir hafa borið brigður á landamerki úrskipts lands Lambeyra og eignarrétt stefnanda í 25% í Dönustöðum. Þá telja þeir að stefnanda beri ekki að fá greiddan arð frá veiðifélagi Laxár í Dölum og hafa þeir á vettvangi veiðifélagsins sótt það mjög fast að stefnandi fái engan arð greiddan heldur eigi að greiða allan arðinn til eigenda Dönustaða.

Þá hafa þeir bræður, Daði og Valdimar, nýtt jörðina Lambeyrar í heimildarleysi á hverju einasta ári síðan stefnandi eignaðist jörðina og þegar stuggað er við þeim kveðast þeir vera í fullum rétti innan landamerkja Dönustaða eða Lambeyrar lóð 1.

Þá bera þeir bræður brigður á eignarrétt stefnanda í íbúðarhúsi sem á jörðinni Lambeyrum stendur (matshl. 10), sem stefnandi hefur leigt út til Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands (OKÍ).

OKÍ rifti leigusamningi við stefnanda fyrr á þessu ári vegna stöðugs ónæðis og ógnana af hálfu stefnda Daða Einarssonar gagnvart þeim sem leigðu húsið gegnum orlofssjóðinn.“

Vilja höggva á hnútinn

Er eins tekið fram að Daði og Valdimar hafi unnið fjölda skemmdarverka á túnum og mannvirkjum, en hvorugur þeirra hafi reynt að vísa málinu til úrlausnar dómstóla svo Dön ehf. geti ekki annað en tekið af skarið til að „höggva megi á hnútinn í eitt skipti fyrir öll“.

Dön ehf. telur ljóst að Lambeyrar hafi í heild sinni verið slegin þeim á nauðungarsölu, með hlutdeild í Dönustöðum, fasteignum og öðru. Upprunalegt afsal Lambeyra sýni að fjórðungur Dönustaða fylgdi með, frumbýlingur jarðarinnar hafi alla tíð litið sem svo á að hlutdeildin fylgdi og eins verða lögð fram fyrir dómi uppdráttur með kröfulínum, loftmyndir, ljósrit landamerkjabréfa, samningar um landamerki, ljósrit úr jarðabókum og fasteignamatsbókum, kaupsamningar og afsöl, gögn frá Nýbýlastjórn ríkisins, veðbókarvottorð og fleira.

Samkvæmt stefnu verður málið þingfest í héraðsdómi Reykjaness þann 15. nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“