Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Elísabetu Erlu Dungal til að endurgreiða Sigurði Gísla Björnssyni 2o milljónir króna sem hann millifærði á reikning hennar í lok árs 2016.
Sigurður sagði greiðsluna hafa verið lán til Elísabetar og í bréfum frá lögmanni hans til hennar síðla árs 2022 var krafist endurgreiðslu á peningunum. Lögmaður Elísabetar hafnaði þessm kröfum.
Elísabet staðhæfði að millifærslan hefði ekki verið lán heldur greiðsla í tengslum við leyndan eignarhlut Sigurður í félagi Elísabetar og eiginmanns hennar, Karls Björgvins Brynjólfssonar, sem heitir Northern Seafood.
Í texta dómsins segir meðal annars um málsástæður Sigurðar:
„Stefnandi byggir á því að ógreitt sé lán hans til stefndu að fjárhæð 20.000.000 króna, sem stefnandi hafi lánað stefndu með millifærslu af eigin bankareikningi nr. […]
inn á bankareikning stefndu nr. […] þann 30. desember 2016. Til sönnunar millifærslunni og þar með lánveitingunni byggir stefnandi á kvittun úr netbanka Arion banka. Stefnandi byggir á því að hann hafi veitt stefndu peningalán, sem stefndu sé skylt að endurgreiða samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Ekki hafi verið samið sérstaklega um gjalddaga kröfunnar, en þá gildi að mati stefnanda sú óskráða meginregla kröfuréttar að lánið beri að endurgreiða þegar krafist sé endurgreiðslu, sbr. m.a. niðurstöðu Hrd. 690/2008.“
Um málsástæður Elísabetar segir:
„Stefnda bendir á að í stefnu sé ekki gerð grein fyrir aðdraganda og/eða forsendum hins svokallaða ,,láns“, og sé því alfarið mótmælt að um lán hafi verið að ræða. Hið rétta sé að um hafi verið að ræða greiðslu vegna viðskipta sem stefnandi hafi verið þátttakandi í ásamt stefndu og eiginmanni hennar, Karli Björgvini Brynjólfssyni. Umrædd greiðsla hafi verið hlutur stefnanda í þeim viðskiptum. Viðskiptin hafi tengst félaginu Northern Seafood ehf., sem hún og eiginmaður hennar hafi átt, en félagið hafi verið umsvifamikið í sölu fiskafurða á erlendum mörkuðum. Á einhverjum tíma, fyrir umþrætta millifærslu, hafi átt sér stað samskipti á milli stefnanda og eiginmanns stefndu um aðkomu stefnanda að nefndu félagi., m.a. vegna áhuga stefnanda á sölu sjávarafurða erlendis, þar sem hann sé reynslumikill á þeim vettvangi, en vegna persónulegra ástæðna hafi hann ekki haft aðgang að slíkum viðskiptum lengur. Þá hafi eiginmaður stefndu einnig verið í miklum samskiptum við starfsmann stefnanda á þeim tíma, [E]. Hafi það m.a. tengst viðskiptum Northern Seafood ehf. við stórt fisksölufyrirtæki í Bretlandi, […], og […], fyrrverandi starfsmanns Northern Seafood ehf.
Vegna framangreindra viðræðna hafi orðið úr að lögmaður stefnanda hafi gengið til samninga við stefndu og eiginmann hennar um kaup á 40% hlut í félaginu Northern Seafood ehf. Kaupandi hlutarins hafi verið félagið Dock ehf., þar sem eignarhald stefnanda átti ekki að vera opinbert samkvæmt skilningi stefndu.“
Engum gögnum er til að dreifa sem skilgreina millifærsluna á einn eða annan hátt, engin sönnun fyrir láni og engin sönnun fyrir þeim viðskiptum sem Elísabet vísar til. Er það mat dómara að Elísabet beri sönnunarbyrði um að greiðslan hafi verið greidd í þeim tilgangi sem hún ber um. Engum gögnum sé til að dreifa um það og því beri að líta á millifærsluna sem peningalán.
Elísabet er því dæmd til að greiða Sigurði 20 milljónir króna ásamt tæplega 750 þúsund krónum í málskostnað.
Dóminn má lesa hér.