Ljósi punkturinn er að Rússar eiga ekki eins mikið af flugskeytum nú og síðasta vetur og því geta þeir kannski ekki gert eins margar markvissar og árangursríkar árásir á úkraínska innviði og síðasta vetur. Enduruppbyggingu innviðanna er ekki enn lokið og þeir hafa því ekki náð þeim styrk sem þeir höfðu fyrir síðasta vetur.
SÞ áætluðu í sumar að raforkuframleiðsla landsins sé um helmingur af því sem hún var fyrir innrásina. Landsmenn hafa því að vonum áhyggjur af komandi vetrarmánuðum án hita og rafmagns.
Fólk reynir að verða sér úti um eldivið. Eldsneyti er dýrt og margir hafa einfaldlega ekki ráð á því þar sem matur er auðvitað forgangsatriði þegar kemur að því að nota það litla fjármagn sem til er.
Margir íbúar á landsbyggðinni munu væntanlega leita til stóru borganna og bæjanna þar sem eru fleiri varaaflsstöðvar og betra aðgengi að neyðaraðstoð. En það eru ekki allir sem geta yfirgefið heimili sitt til að fara til stóru borganna og bæjanna.