Norskt félag sem kom á fóti hóteli í Kópavogi skilur eftir sig kröfur upp á tæpa þrjá milljarða króna. Ráðgjafi sem kom að samningum segir að líklega hafi covid faraldurinn spilað stóra rullu í að svo fór sem fór.
Félagið Tribe Iceland var úrskurðað gjaldþrota í september árið 2020 og skiptum lauk þann 8. september síðastliðinn. Rúmar 8 milljónir fundust í búinu sem gengu upp í forgangskröfur en ekkert greiddist upp í rúmlega 2,7 milljarða almennar kröfur.
Félagið var í eigu norskrar hótelkeðju sem rekur hótelin First Hotels þar í landi og víðar á Norðurlöndum, samanlagt 28 hótel. Er félagið hluti af samstæðunni Flying Elephant.
Félagið keypti og endurbyggði húsnæði trúfélagsins Krossins við Hlíðasmára í Kópavogi og kom þar á fót First hóteli.
Hjá ríkisskattstjóra er Sverrir Hermann Pálmarsson skráður fyrir 40 prósenta hlut í Tribe Iceland en hann segir að það séu gamlar upplýsingar. Hann hafi aðeins verið skráður eigandi tímabundið, fyrir um átta árum síðan, þegar verið var að semja um kaupin.
Sverrir Hermann rekur ráðgjafafyrirtæki. Hann hefur meðal annars verið í fréttum vegna kaupa kanadíska auðjöfursins Otto Spork á vatnsréttindum í Snæfellsbæ.
„Ég veit ekkert meir. Ég kom samningnum á við Íslandsbanka og svo fór ég út,“ segir Sverrir. En það var sjóðsstýringarfyrirtækið Íslandssjóðir, í eigu Íslandsbanka, sem tók við málinu.
Sverrir segist halda að afleiðingar covid faraldursins hafi gengið frá hótelinu. Hann segist hins vegar ekki vita í hverju þessar kröfur upp á þrjá milljarða króna felast.
ATH: Fréttin hefur verið leiðrétt.