Heiðrún Finnsdóttir ætlaði ekki að verða þjálfari, allavega ekki fyrstu þrjá áratugi lífs hennar. Hún lýsir sér þá sem sófakartöflu með vefjagigt sem reykti en allt breyttist þegar hún var send á sundæfingu með eldri borgurum á Grensás.
Heiðrún er nýjasti gestur í Fókus, spjallþætti DV. Hún er þjálfari og heldur úti vinsælli Instagram-síðu þar sem hún birtir reglulega fróðleik um hreyfingu, næringu og allt þar á milli.
Í Fókus lýsir Heiðrún lífi sínu áður en hún fann sig í hreyfingu.
„Ég er sófakartafla að innan og sæki rosa mikið í sófann ennþá. Ég hreyfði mig ekki neitt. Ég var feit og var 110 kíló þegar ég var feitust, var kyrrsetu manneskja. Ég var ekkert í þessum heilbrigða lífsstíl. Ég hélt að genin væru þannig að ég væri dæmd til að vera feit og þessi týpíska manneskja sem fer ekki í ræktina og finnur ekki hvatann til að drífa sig af stað. Heldur að það sé enginn tilgangur með því,“ segir hún.
Hún byrjaði að hreyfa sig árið 2014 og þá var ekki aftur snúið. Það var þó ekki leikur einn að stíga fyrstu skrefin en hún segir þrjóskuna hafa ýtt henni áfram.
„Ég byrjaði í endurhæfingu. Þá var ég komin á mjög slæman stað. Þá var ég komin með vefjagigt, ég var komin með alls konar verki hingað og þangað um líkamann. Ég gat ekki labbað upp stiga án þess að vera móð, átti erfitt með að bera innkaupapoka, hvað þá að vera með tvö lítil börn,“ segir hún.
„Ég byrjaði í endurhæfingu og byrjaði á sundi með eldri borgurum á Grensás. Það var botninn fyrir mig. Þá upplifði ég mikla niðurlægingu að vera þarna og svona, að horfa í kringum sig og sjá: „Ókei, ég er yngst og ég get ekki náð í tærnar á mér.“ Það var svona wake up call-ið sem ég þurfti.“
Heiðrún vissi að hún þurfti að hreyfa sig en ákvað að fara í þveröfuga átt. „Út frá því ákvað ég að fara í eitthvað sem enginn sagði að ég gæti, ég fór í súlufitness.“
Tveimur árum síðar kynntist hún Crossfit. „Ég labbaði út úr fyrsta Crossfit-tímanum mínum og henti sígarettupakkanum mínum og hef ekki reykt síðan. Ég gat ekki hlaupið hring [inni í íþróttasalnum]. Ég var langsíðust með byrjendawodið og þetta gekk rosalega illa. En þetta er það sem ég þurfti, því þarna fann ég dólginn í mér,“ segir hún brosandi.
Horfðu á þáttinn hér að ofan. Fylgstu með Heiðrúnu á Instagram.