Heimastjórn Seyðisfjarðar vill vita hvort að veitt verði leyfi fyrir sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Með lokun bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar tapist 30 heilsársstörf sem þurfi að fylla með einhverjum hætti.
„Þetta er svakalegt áfall fyrir samfélagið,“ segir Björg Eyþórsdóttir, formaður heimastjórnarinnar og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Múlaþingi. Fyrir sléttum mánuði síðan tilkynnti Síldarvinnslan að bolfiskvinnslunni yrði lokað í lok nóvember. Þar með tapast 30 heilsársstörf í bænum.
Lokuninni hefur verið frestað þangað til í mars en bæjarstjórn Múlaþings er að koma á fót starfshópi um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði sem viðbragði við þessu. Heimastjórnin á fulltrúa í þessum starfshóp og hún vill fá að vita hvort að sjókvíaeldi sé að koma í bæinn eða ekki.
„Áður en þessi vinna fer í gang þarf að vera ljóst hvaða atvinnumöguleikar eru á borðinu,“ segir Björg. Fiskeldi Austfjarða vill koma á fót 10 þúsund tonna sjókvíaeldi í Seyðisfirði en umsóknin hefur legið lengi á borði Matvælastofnunar og mikil óvissa ríkir um hvort eða hvenær hún verði samþykkt.
Seyðfirðingar hafa hins vegar ekki verið á einu máli um ágæti þess að fá eldið í bæinn. Í byrjun árs lét sveitarfélagið Gallup gera íbúakönnun þar sem spurt var um ýmsa hluti. Kom þar meðal annars fram að 75 prósent Seyðfirðinga væru á móti sjókvíaeldi í firðinum. Þá var í júli haldinn fjölmennur samstöðufundur gegn sjókvíaeldi í bænum.
„Við erum alls ekki að taka laxeldi fram yfir einhverja aðra atvinnugrein. Við viljum fá botn í það mál hvort þetta leyfi verði veitt eða ekki,“ segir Björg.
Ef vitað er að fiskeldið sé ekki á borðinu þá þurfi að bregðast við því og finna einhver önnur heilsársstörf. Ef vitað er að leyfið verði veitt er hægt að vinna með þá niðurstöðu.
Hafa beri í huga hins vegar að fiskeldið myndi ekki fylla fullkomlega í skarð brotthvarfs bolfiskvinnslunnar. Það myndi aðeins skapa á bilinu 16 til 18 heilsársstörf.
„Það þarf fleira og við þurfum fjölbreyttari atvinnulíf á Seyðisfjörð,“ segir Björg.
Aðspurð um afstöðu heimastjórnar til hinnar umdeildu atvinnugreingar segir Björg að hún hafi hvorki tekið afstöðu með né á móti.
„Það er ábyrgðarhlutur að útiloka eina atvinnugrein frekar en einhverja aðra. Við viljum ekki gera það,“ segir Björg. „Hins vegar hlustum við á og heyrum raddir þeirra sem mótmæla fiskeldi og vilja ekki fá það í Seyðisfjörð. Okkur er það alveg ljóst að það er ekki samstaða um þetta. Hins vegar eru leyfisveitingarnar á borði Matvælastofnunar.“