Meshaal, sem í dag er búsettur í Katar, er einn áhrifamesti meðlimur samtakanna og undir hans stjórn fengu samtökin þingmeirihluta árið 2006.
Í ávarpi sem Meshaal hefur birt kallaði hann eftir stuðningi nágrannaþjóða Ísraels og Palestínu og nefndi hann sérstaklega Jórdaníu, Sýrland, Líbanon og Egyptaland. Mikill fjöldi flóttafólks frá Palestínu er búsettur í Jórdaníu og Líbanon.
„Ættbálkar Jórdaníu, synir Jórdaníu, bræður og systur Jórdaníu, þetta er stund sannleikans og landamærin eru nærri ykkur, þið vitið öll hver ykkar ábyrgð er,“ sagði hann í ávarpinu sem Reuters birti. Sagði hann að nú væri tími til að draga fram kenningar um jihad, eða heilagt stríð.
Hamas-samtökin hafa sjálf kallað eftir því að samstöðufundir verði haldnir á morgun, til dæmis í Gaza, á Vesturbakkanum og í Ísrael.
Bandarísk yfirvöld hafa sett sig í samband við yfirvöld í Katar í þeirri von að koma á beinum samskiptum við Hamas-samtökin. Er markmiðið að semja um lausn gísla sem Hamas-samtökin handsömuðu um helgina.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir að enn sem komið er hafi það ekki borið árangur. Bandarísk stjórnvöld viti ekkert um ástand gíslanna eða hvar þeir eru niðurkomnir.