Rex Heuermann, maðurinn sem er grunaður um að vera hinn alræmdi Gilo-strandar morðingi og bera ábyrgð á andláti minnst þriggja ungra kvenna, er talinn hafa notað vefsíður á netinu til að komast í samband við fórnarlömb sín. Líkamsleifar fórnarlambanna fundust á Gilgo-ströndinni við Long Island í Bandaríkjunum. Þær höfðu allar verið myrtar og komið fyrir með áþekkum hætti, þó þær hafi verið myrtar á ólíkum tímum. Lögreglu þótti því ljóst að hér væri raðmorðingi á ferðinni, en málið átti eftir að valda heilabrotum í um áratug áður en Rex var handtekinn. Hefur hann nú verið ákærður fyrir þrjú morð, en á sama stað fundust þó líkamsleifar fleiri kvenna og því talið líklegt að Rex hafi banað fleirum. Ítrekað hefur komið fram að mál þetta hefur óvenjulega tengingu við Ísland, en Rex er giftur íslenskri konu, Ásu Ellerup.
Nú styttist í að aðalmeðferð fari fram í málinu, en fjölmiðlaáhuginn hefur verið gríðarlegur, enda ekki á degi hverjum sem lögregla hefur hendur í hári raðmorðingja. Kona nokkur sem starfaði sem fylgdarkona fyrir um áratug síðan hefur stigið fram og segist hafa mælt sér mót við meinta morðingjann árið 2013 Hann hafi verið svo ógnvekjandi á stefnumótinu að hún hafi neitað að setjast upp í bíl með honum, og mögulega hafi hún þar með komist hjá því að verða ein af Gilgo-fórnarlömbunum.
Hún segist deila sögu sinni til að vara konur við þeim hættum sem fylgir því að kynnast ókunnugum í gegnum netið.
Fyrrum fylgdarkonan Nikkie Brass, segist hafa farið á stefnumót með Rex, þar sem hann hafi sjálfur byrjað að tala um Gilgo-strandar morðin. Þau hafi kynnst í gegnum vafasama vefsíðu og mælt sér mót á veitingastað. Þar hafi þau spjallað um daginn og veginn þar til Rex spurði skyndilega hvort hún væri hrifin af sönnum sakamálum.
„Ertu aðdáandi sannra sakamála? Og ég svaraði – já reyndar. Ég gæti líklega sagt þér meira um raðmorðingja heldur þeirra eigin mæður. Ég er forfallin.“
Þá hafi Rex nefnt Gilgo-strandar morðin og talaði um þau af mikilli þekkingu. Hann hafi vita mikið, meira að segja um lík sem hafði ekki verið fjallað um í fréttum.
„Um leið og hann fór að tala um Gilgo-strandar morðin lyftist hann allur upp. Hann hallaði sér fram á borðið og glotti,“ sagði Nikkie í samtali við FOX fréttastofuna. Rex hafi virst spenntur yfir umræðuefninu og fannst Nikkie eins og hann hafði beðið lengi eftir að fá að ræða þetta. Hann hafi ekki birst henni þarna sem aðdáandi morðanna heldur fremur einhver sem væri að endurupplifa þau.
„Ég fékk mjög slæma tilfinningu. Og hann var með þennan svip á andlitinu – eins og hann væri að fá andlega fullnægðingu við tilhugsunina að fá að ræða morðin. Hann virtst njóta umræðunnar of mikið. Hann sat þarna með fylgdarkonu en sagði hluti á borð við að fórnarlömbin væru reyndar bara hórur, og ættu engan að sem þætti vænt um þær. En ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur því ég ætti dóttur og hefði framtíðardrauma. Mér fannst eins og hann væri ekki aðdáandi að tala um sakamál heldur eins og einhver sem væri að sjá fyrir sér eitthvað sem hann hafi sjálfur upplifað.“
Rex hafi svo beðið hana að koma með sér í bíl hans. Hann hafi lagt hart að henni að samþykkja, en hún vildi ekki skilja sinn eigin bíl eftir og þar að auki þótti henni Rex skuggalegur.
Nikkie fann fyrir óþægindum og vildi forða sér frá þessum undarlega og ógnvekjandi manni. Hún hafi sent kunningja skilaboð þar sem hún sagði beinum orðum: „Ég held að þetta sé Gilgo-strandar morðinginn“. Kunninginn hafi komið á veitingastaðinn þar sem þau voru og fylgt henni heim, án Rex.
„Ég þakka guði að ég fylgdi innsæinu mínu þarna. Ég fór um leið og reikningurinn kom og ég talaði aldrei við þennan mann aftur.“
Nikkie segist deila reynslu sinni til að vara aðrar konur við því að hitta ókunnuga menn sem þær hitta í gegnum vafasamar vefsíður.