Katla Hreiðarsóttir, hönnuður og eigandi Systur og Makar, mætti í útvarpsþáttinn Ísland vaknar á K100 í morgun með ýmsa furðuhluti sem hún safnar. Eins og nýrnasteina, barnatennur, sögulegan titrara, sílikonpúða og mjaðmakúlu úr norskum karlmanni.
Þáttastjórnendurnir Kristín Sif Björgvinsdóttir og Þór Bæring spurðu Kötlu út í þessa „furðulegu þráhyggju“ að safna slíkum hlutum og hvaðan hún kæmi.
„Ég held að þetta hafi byrjað mest á tönnunum. Mamma safnar og á allar tennurnar úr okkur krökkunum og á naflastrenginn [frá yngsta barninu]. Ég var viss um að hún myndi gera hálsmen úr þessu, úr svona tönnum og naflastrengur í miðjunni,“ sagði Katla, en móðir hennar lét ekki verða að því.
„Ég á eitthvað af tönnum og naflastreng. Ég á nashyrningabjöllu frá 1975 frá Kenýa,“ sagði hún og sýndi Kristínu sem gretti sig.
Katla opnaði sig um þetta áhugamál á Instagram fyrir einhverju síðan og áttaði sig á að hún væri alls ekki sú eina sem safnaði svona hlutum. Nokkrir fylgjendur vildu gefa henni hluti í safnið og hefur hún til dæmis fengið sílikonpúða – sem voru áður í umræddum fylgjanda – og lykkju, sem er getnaðarvörn sem er komið fyrir í legi konu. Hún á tvær lykkjur frá tveimur kvenkyns fylgjendum hennar á samfélagsmiðlum.
„Fíllinn í herberginu, hvað gerir þú við þetta?“ Spurði Þór.
„Draumurinn er að smíða í alvörunni skrýtna skápinn. Hann á að vera á ganginum en hann er sirka sex fermetrar þegar hann verður kominn, þannig mig vantar þó nokkuð í viðbót.“
Aðspurð hvað hana langar að bæta við safnið nefnir hún meðal annars fylgju og „eitthvað í formalíni.“
Horfðu á heimsókn Kötlu hér að neðan og sjáðu alla hlutina sem hún kom með.