Adrian Martineau, prófessor í öndunarfærasjúkdómum og ónæmi og einn af höfundum rannsóknarinnar, sagði í samtali við The Guardian að ef niðurstöðurnar eru réttar, þá sé það ekki aðeins COVID sem geti valdið langvarandi sjúkdómum á borð við hósta, magaverki og niðurgang.
„Niðurstöðurnar geta kannski skýrt þá upplifun margra, sem hafa glímt við langvarandi sjúkdómseinkenni eftir öndunarfærasýkingu, þrátt fyrir neikvætt COVID-19-sýni,“ sagði hann.
Niðurstöðurnar benda þó ekki til að einkennin séu jafn mikil og langvarandi eins og við COVID-19 smit.
Rannsóknin var gerð á Queen Mary University í Lundúnum og byggist á gögnum um 10.203 einstaklinga. 22% þeirra voru með langvarandi einkenni sem tengdust ekki COVID-19.
Martineau sagði að fólk, sem er með COVID-19, sé líklegra til að finna fyrir skertu bragð- og lyktarskyni auk svima. Það upplifir einnig frekar mikinn hjartslátt, svita og hártap.
Hjá þeim, sem ekki voru með COVID-19, upplifðu fleiri hósta og hálsbólgu.
Báðir hóparnir fundu fyrir öndunarörðugleikum og örmögnun.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þeim mun meira sem kvefið er, þeim mun meiri líkur eru á að finna fyrir langvarandi einkennum.