fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Afsögn án afsagnar

Eyjan
Fimmtudaginn 12. október 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áformum Bjarna Benediktssonar um að hverfa úr fjármálaráðuneytinu án formlegrar lausnarbeiðni og halda því um leið opnu að taka við öðru ráðherraembætti hefur verið líkt við afsögn. Það er þá fyrsta afsögn án afsagnar, sem sögur herma.

Væntanlega verður haldinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum á næstunni. Ljúki fundinum á þann veg að allir, sem til hans koma í byrjun, sitja áfram í ríkisráðinu að honum loknum hefur enginn afsögn átt sér stað.

Ráðherrar geta skipt um ráðuneyti. Það er hrókun. Í manntafli er hún gerð til að koma kóngi í skjól. Hún er ekki fórn og sjaldgæf í endatafli.

Vanhæfi

Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að fjármálaráðherra hafi verið vanhæfur til þess að taka ákvörðun um sölu eignarhluta í Íslandsbanka.

Þetta snýst um grundvallarreglu stjórnsýslulaga. Sú skylda hvílir á ráðherra við hverja ákvörðun að ganga úr skugga um að reglur um sérstakt hæfi standi ekki í vegi.

Vanræksla á að sinna þessari skyldu leysir ráðherra ekki undan ábyrgð. Spurning um grandleysi er málinu því óviðkomandi með öllu.

Þar með er ekki sagt að öll frávik eigi að leiða til afsagnar. Hafi ráðherra fengið lögfræðiálit embættismanns, áður en söluferlið hófst, um að ekki þyrfti að gæta að sérstökum hæfisreglum stjórnsýslulaga væri hugsanlega fullnægjandi að viðkomandi embættismaður víki.

Hættustig

Sé slíkt lögfræðiálit til er óhjákvæmilegt að birta það með dagsetningu.

Það væri til marks um mjög alvarlega brotalöm í lögfræðiráðgjöf til ráðherra, sem bregðast yrði við með markvissum hætti. Þetta er brýnt verkefni fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Þetta mál, embættisfærsla Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og nokkur önnur eru sterk vísbending um að veikleiki stjórnsýslunnar sé kominn á hættustig.

Fyrstu viðbrögð skipta mestu

Ráðherra staðhæfir enn að stjórnsýslulög taki ekki til málsins og að niðurstaða Umboðsmanns Alþingis sé röng. Ástæðan fyrir því að hann opni á að fara í annað ráðuneyti sé sú að skapa frið um fjármálaráðuneytið.

Þetta er þriðja álit eftirlitsstofnana. Í þeim öllum hafa verið kveðnir upp þungir dómar um hlut verðbréfasala, Bankasýslu og ráðherra. Af hverju var ekki óskað eftir ráðuneytaskiptum strax og fyrsti áfellisdómurinn kom til að skapa starfsfrið?

Stjórnmálafræðingar segja oft að fyrstu viðbrögð ráðherra skipti oft meira máli en mistökin sjálf þegar meta á hvort þau leiði til afsagnar. Í þessu máli stendur upphafleg afneitun enn.

Þegar varnarlína á taflborði er farin er oftast of seint að hrókera.

Matvælaráðherra kominn í skjól

Ríkisstjórnin stjórnar ekki landinu meðan tíminn fer í taflmennsku af þessu tagi. Hún veikist því enn við þessa atburði.

Umboðsmaður er með embættisfærslu matvælaráðherra til skoðunar. Svo vægt sé tekið til orða er ekki unnt að útiloka að niðurstaðan verði ráðherra í óhag.

Eftir beiðni um ráðherrahrókun nú geta þingmenn sjálfstæðismanna ekki krafist afsagnar matvælaráðherra komi sú staða upp. Flest bendir því til að þeir hafi komið Svandísi Svavarsdóttur í öruggt skjól.

Þurfi VG síðan að endurgjalda það vinarbragð með því að samþykkja endanlega sölu Íslandsbanka má fyrst segja að hrókun í töpuðu endatafli hafi dugað til vinnings.

Refskák en ekki siðbót

Forsætisráðherra hefur frá fyrsta degi tekið sama pól í hæðina og fjármálaráðherra og haldið því fram að stjórnsýslulög um sérstakt hæfi hafi ekki átt við, jafnvel eftir að Umboðsmaður tók málið til skoðunar.

Álit Umboðsmanns Alþingis er því líka þungur dómur um þessa afstöðu forsætisráðherra. Brýnna er að kalla eftir viðbrögðum við þeirri stöðu en rannsóknarnefnd í máli, sem nú er upplýst að mestu.

Svo má ekki horfa fram hjá hinu að skapi álit Umboðsmanns óróa í fjármálaráðuneytinu er ekki unnt að útiloka að sá órói fylgi ráðherra yfir í nýtt ráðuneyti. Þess vegna víkja ráðherrar erlendis við aðstæður sem þessar en geta svo komið aftur.

Ef við lítum á pólitík sem refskák og ekkert annað eru þetta snjallir leikir. En þeir hafa ekkert með siðbót í stjórnmálum að gera.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim