Katarinn Sheikh Jassim er við það að eignast Manchester United ef marka má sjónvarpsstöð þar í landi.
Þetta kemur fram nú í kvöld en United hefur verið á sölu síðan í nóvember í fyrra.
Síðan þá hafa þeir Sheik Jassim og Sir Jim Ratcliffe verið taldir líklegastir til að eignast félagið.
Nú segir katarska stöðin Alkass TV Sport að Sheikh Jassim sé að verða nýr eigandi United.
Katarinn vill eignast allt félagið og ætlar sér heldur betur að taka til þar. Hreinsa á upp allar skuldir og fjárfesta á öllum sviðum, þar á meðal í heimavellinum Old Trafford sem er heldur betur kominn til ára sinna.
Alkass TV Sport segir jafnframt að það hafi aldrei raunverulega komið til greina að Ratcliffe myndi eignast félagið.