Kannast þú við ánægjuna sem fylgir því að fá gluggasæti í flugvél? Kannski borgaðir þú aukalega fyrir gluggasætið því þér finnst betra að hafa smá útsýni á leiðinni. En hvernig myndir þú bregðast við ef þú sér að gluggasætið er í raun gluggalaust?
Það er það sem farþegar lenda í ef þeir fljúga með Ryanair í Boeing 737 vélum félagsins. Þetta á við um sæti 11A.
Sætið hefur árum saman verið uppspretta ótal kvartana og gríns á samfélagsmiðlum að sögn Flightradar24.
Ástæðan er að sætið er gluggalaust þrátt fyrir að það sé nærtækt að halda að það sé við glugga þar sem það er með bókstafinn A. Í staðinn fyrir glugga er hluti af hitastjórnunarkerfi sem stýrir hitanum í farþegarýminu.
Þetta hitastjórnunarkerfi er eins í öllum Boeing 737 vélum en flugfélögin innrétta farþegarýmið á mismunandi hátt og það hefur í för með sér að það er ekki alltaf sæti 11A sem er gluggalaust.
Það á til dæmis við um sumar af Boeing 737 MAX 8200 vélum Ryanair. Ryanair nýtir plássið í þeim til hins ýtrasta og hefur fært sætaraðirnar þéttar saman en venja er. Það þýðir að í þeim er það sæti 12A sem er gluggalaust.
Flightradar24 ráðleggur fólki því að forðast sæti 11A og 12A ef það flýgur með Ryanair og vill fá gluggasæti. Ef fljúga á með Buzz eða Malta Air, þá er það sæti 12A sem þarf að forðast.
Frægðarsól sætis 11A er svo mikil að það er með sinn eigin aðgang á samfélagsmiðlinum X.