fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Tólf ára drengur þarf ekki að undirgangast DNA rannsókn – Móðir sökuð um framhjáhald

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 11. október 2023 20:00

Móðir drengsins neitaði að láta hann undirgangast DNA rannsókn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að tólf ára sonur manns sem lést í fyrra þurfi ekki að undirgangast mannerfðafræðilega rannsókn. Hálfsystkini hans segja föðurinn hafa sakað móðurina um hjúskaparbrot og staðhæft að þau stunduðu ekki kynlíf.

Hæstiréttur felldi sinn dóm í dag, 11. október, og staðfestir dóm Landsréttar frá því í maí síðastliðnum. Það var hins vegar viðsnúningur frá dómi Héraðsdóms Reykjaness frá því í apríl sem laut að því að drengurinn þyrfti að undirgangast mannerfðafræðilega rannsókn.

Faðirinn kynntist móður drengsins árið 2004 og hófst ástarsamband á milli þeirra ári seinna. Hann átti þá tvö uppkomin börn úr fyrra sambandi, en þau eru fólkið sem sótti þetta mál fyrir dómi.

Móðirin flutti inn í hús föðursins og gengu þau í hnapphelduna í júní árið 2005. Bjuggu þau til skiptis á Íslandi og erlendis. Árið 2011 varð móðirin þunguð og eignaðist soninn sem málið stendur um. Faðernið var þá skráð á fæðingarvottorð drengsins.

Hafi ekki stundað kynlíf

Faðirinn lést árið 2022 og fóru börnin tvö þá fram á að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á hálfbróður sínum. Héldu þau því fram að faðir þeirra hafi fyrir fæðingu hans ítrekað sakað móðurina um hjúskaparbrot. Einnig að eftir fæðinguna hafi hann staðhæft við þau að útilokað væri að hann væri faðir drengsins. Þau hefðu ekki lifað kynlífi og drengurinn væri ólíkur honum í útliti.

Vildu þau fá úr þessu skorið, bæði til þess að fá að vita um hugsanleg ættartengsl sín og einnig vegna skipta á dánarbúi föðursins. Vildu þau þess vegna að tekin yrðu sýni úr drengnum, látnum föður þeirra og þeim sjálfum ef svo bæri undir.

Í dómi héraðsdóms segir að þau hafi sagt að móðirin hafi látið loka Facebook síðu föðursins eftir að hann lést. Þetta telji systkinin til marks um það að hún hafi verið að hylma yfir samskipti hennar og föðursins.

Flutti inn í húsið og tók tölvu traustataki

Móðirin neitaði hins vegar að láta drenginn undirgangast rannsóknina og sagði að systkinin hefðu ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þess að faðernið væri dregið í efa. Yfirgnæfandi líkur væru á því að annað systkinið, sem er sonur, hefði lokað Facebook síðu föðursins.

Sá sonur hafi flutt inn á heimili þeirra hjóna og lagt heimilið undir sig með þeim afleiðingum að móðirin hafi þurft að leita atbeina skiptastjóra dánarbúsins til að fá umráð hluta fasteignar sinnar þrátt fyrir rétt hennar sem langlífari maka til eignarinnar.

Sonurinn hafi tekið tölvu föðursins traustataki og því geta lokað Facebook síðunni. Einnig hafi hann sýnt móðurinni „hreinræktaða andúð“ eftir komu hennar til Íslands og þessi málsókn sé birtingarmynd hennar.

Einkalíf trompar fjárhagslega hagsmuni

Hæstiréttur hafnaði kröfu systkinanna með vísun til barnalaga og ákvæða stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins.

„Í ljósi þess að ekki liggur annað fyrir í málinu en einhliða staðhæfingar sóknaraðila til stuðnings því að drengurinn sé ranglega feðraður verður lagt til grundvallar, eins og mál þetta er vaxið, að hagsmunir hans af því að þurfa ekki að þola inngrip með mannerfðafræðilegri rannsókn vegi þyngra en þeir hagsmunir sóknaraðila að slík rannsókn fari fram,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Fjárhagslegir hagsmunir systkinanna af því að girða af að drengurinn taki arf eftir föður sinn skipti ekki máli þegar litið sé til ríkra hagsmuna hans af einkalífi sínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Trump í fyrsta viðtalinu eftir árásina – „Ég á að vera dauður“

Trump í fyrsta viðtalinu eftir árásina – „Ég á að vera dauður“
Fréttir
Í gær

Safnað fyrir fjölskyldu Viðars – „Setti mig og börnin okkar alltaf í fyrsta sæti“

Safnað fyrir fjölskyldu Viðars – „Setti mig og börnin okkar alltaf í fyrsta sæti“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill