Rapparinn og athafnamaðurinn Kanye West verður seint sagt óumdeildur. Þó svo hann njóti mikilla vinsælda og eigi dygga aðdáendur hefur hann undanfarin ár komið sér í ónáð hjá hverjum hópnum á eftir öðrum. Hann er þekktur fyrir mjög íhaldssamar skoðanir sem gjarnan tilheyra hægri vængnum og ekki veigrað sér við að segja nákvæmlega það sem hann hugsar, án nokkurs tillits til þess hvernig ummælin gætu sært.
Hjónaband hans og raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian sigldi eftirminnilega í strand og virðist Kanye hafa tekið skilnaðinum mjög illa og leitað allra leiða til að ná sér niður á fyrrverandi eiginkonunni. Gekk hann svo langt að hreinlega hvetja til ofbeldis gegn grínistanum Pete Davidson þegar sá var að slá sér upp með Kim, og hefur hann auk þess verið gagnrýnin á uppeldi sinnar fyrrverandi á börnum þeirra fjórum.
Nýlega bárust þær fréttir að Kanye væri genginn út. Hann hefði gengið að eiga konu að nafni Bianca Censori, sem kom flestum að óvörum enda var ekki vitað til þess að rapparinn ætti kærustu, hvað þá unnustu.
Nú hefur þó verið greint frá því að hjónin hafi hlaupið að altarinu til þess að geta haft samfarir. Trú Kanye hafi ekki leyft honum að stunda kynlíf án þess að það hefði hlotið náð í augum guðs, Krists og hins heilaga anda. Hann hafi því ákveðið að drífa sig í hnapphelduna svo hann gæti stundað kynlíf án fordæmingar. Kanye og Bianca giftu sig í desember á síðasta ári, en lengi var talið að giftingin hefði ekki verið bindandi að lögum. Nú er komið á daginn að rapparinn er vissulega giftur, og gifti sig um mánuði eftir að skilnaður hans og Kim var formlega frágenginn.
Áður en Kanye byrjaði með núverandi eiginkonu sinni átti hann í áberandi og umtöluðu sambandi við leikkonuna Juliu Fox, í um tvo mánuði. Julia var frekar óþekkt þegar hún byrjaði að slá sér upp með Kanye, en eftir að sambandinu lauk vissu flestir hver hún var. Hún ákvað að nýta sér þennan meðbyr og hefur skrifað bók um þetta skammlífa samband sitt við rapparann sem heitir Down the Drain, eða ofan í niðurfallið. Þar lýsir hún skuggahliðum rapparans.
Segir leikkonan að hún hafi hitt rapparann eftir að kunningi spurði hvort hann mætti gefa frægum listamanni símanúmer hennar. Fljótlega hafi hún svo fengið textaskilaboð og svo fóru símtölin að berast. Hún og Kanye hafi talað saman klukkustundunum saman, en í raun hafi samtalið verið einhliða þar sem Kanye röflaði og hún hlustaði. Svo loksins hittust þau og fljótlega eftir það bað Kanye hana að byrja með sér. Um leið og hann bar upp spurninguna stökk fram ljósmyndari og náði stundinni á filmu. Í beinu framhaldi spurði Kanye hvort hún væri mótfallin því að þau opinberuðu samband sitt.
Morguninn eftir vaknaði Julia við símhringingu frá fjölmiðlum. Upp hafði komist um sambandið og gerðist það svo hratt að Julia trúir ekki öðru en að Kanye hafi sjálfur lekið því til fjölmiðla.
Kanye hafi tekið yfir líf hennar. Hann hafi ráðið því hvernig hún klæddi sig og jafnvel reynt að fá hana í brjóstastækkun. Hann hafi skipulagt myndatökur og lekið til fjölmiðla. Ef hún ætlaði að hitta rapparann þurfti hún fyrst að hitta teymi á hans vegum sem buðu henni upp á fatnað sem Kanye hafði samþykkt og eins hafði hann sent stílista til að gæta þess að hún væri máluð og greidd í samræmi við hans óskir.
„Mér fannst eins og hann væri að nota mig í einhverjum furðulegum afbrigðilegum leik. Það gaf mér óbragð í munninn.“
Julia segist hafa áttað sig á því að hér væri ekki um samband að ræða, heldur eins konar auglýsingaherferð. Útspil rapparans til að sýna heiminum að hann væri ekki enn að svekkja sig á fyrrverandi eiginkonunni.
Að lokum sagði Julia honum upp. Ekki reyndi Kanye að halda í sambandið en hann reyndi þó hvað hann gat að fá Juliu til að skrifa undir þöggunarsamning, svo hún gæti ekki opnað sig um tíma þeirra saman. Ef hún skrifaði ekki undir þá gætu þau ekki verið vinir.
„Ég lifi,“ svaraði Julia og skrifaði ekki undir neitt.