Ísland mætir Lúxemborg á föstudag og Liechtenstein þremur dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram hér heima.
„Þetta leggst vel í mig. Við erum í smá hefndarhug, ætlum að ná í góð úrslit. Ég er spenntur að spila á Laugardalsvellinum,“ segir Rúnar við 433.is, en Ísland tapaði fyrri leiknum úti í Lúxemborg illa 3-1.
„Það verður að vera smá bensín á eldinn að hafa tapað þessum leik. Við þurfum að ná í góð úrslit til að eiga séns á þessu öðru sæti og ég held að þetta sé bara kjörið tækifærið.“
Eftir tapið gegn Lúxemborg vann íslenska liðið dramatískan 1-0 sigur á Bosníu-Hersegóvínu. Strákarnir nýta það sem meðbyr.
„Það var geggjað að sýna bæði land og þjóð að við getum enn unnið leiki. Þetta var skemmtilegur sigur, að halda hreinu og pota inn smá ljótu marki undir lokin.“
Gylfi Þór Sigurðsson er snúinn aftur á völlinn eftir langa fjarveru og þá er Aron Einar Gunnarsson snúinn aftur eftir meiðsli.
„Það er mjög gott. Þeir koma með gæði inn á völlinn en líka ákveðið hugarfar og fagmennsku inn á hótel og allt utan vallar. Það er gott fyrir okkur alla,“ segir Rúnar.
Rúnar gekk í raðir Cardiff í ensku B-deildinni á láni frá Arsenal í sumar en hefur að mestu verið á bekknum. Hann hefur spilað báða leiki liðsins í enska deildabikarnum til þessa og einn í deildinni.
„Þetta hefur verið leiðinlegt. Ég kom þarna til að spila en það er hörkumarkmaður sem er að spila núna. Ég þarf að vera þolinmóður og grípa tækifærið þegar það gefst,“ segir Rúnar.
„Það var svolítið súrt að fá þessa tvo leiki fyrir síðasta verkefni og halda að þetta væri kannski bara komið þá en koma til baka og þetta var svolítið tekið af manni. Mér fannst það óverðskuldað en svona er boltinn, það er ekkert sanngjarnt í þessu. Ég verð bara að æfa eins og maður og vera tilbúinn.“
Rúnar kom til Cardiff á þeim forsendum að vera aðalmarkvörður.
„Það var sagt að ég myndi spila alla leiki. En það er margt sagt í þessu þannig maður ætti kannski að taka öllu með smá fyrirvara.“
Ítarlegra viðtal við Rúnar er í spilaranum.