Maður á sextugsaldri hefur stefnt ríkinu vegna harkalegrar og viðamikillar lögregluaðgerðar, með aðkomu sérsveitar Ríkislögreglustjóra, á Seyðisfirði í ágústmánuði árið 2022.
Sérsveitin ruddist þá inn á manninn og son hans, sem maðurinn var í heimsókn hjá, en uppgefið tilefni var að sonurinn var sagður hafa undir höndum skotvopn án leyfis. DV fjallaði um málið á sínum tíma og ræddi við manninn:
Um tilefni aðgerðarinnar sagði maðurinn þá: „Stóri glæpurinn er sá að sonur minn var með útrunnið byssuleyfi, eins og þúsundir annarra Íslendinga, og því gerðu þeir byssur í hans eigu upptækar. Þær voru harðlæstar í rammgerðum byssuskáp eins og reglur kveða á um og það var eins og þeir færu að veita þeim athygli þegar ekkert annað haldbært fannst. Ef slíkt réttlætir að flogið sé með sérsveitarmenn þvers og kruss um landið þá er ljóst að rekstur lögreglunnar er ansi dýr. Þá hlýtur það að vera galið ef sérsveitin er alltaf ræst í útkall ef einhver á staðnum er með byssuleyfi. Tilvik þar sem byssum er beint gegn lögreglu eru blessunarlega það sjaldgæf að það er varla hægt að réttlæta þetta verklag,“
Í stefnu málsins segir um málsatvik:
„Stefnandi lagði sig eftir matinn, eins og hann gerir gjarnan. Þar sem hann lá uppi í rúmi á nærbuxum einum fata og var að festa svefn, hrökk hann upp við mikinn hávaða og var greinilegt að lögregla var komin í húsið. Var honum mjög brugðið en áður en honum tókst að komast fram úr og klæða sig ruddust sérsveitarmenn inn í svefnherbergið þar sem hann lá, með fyrirgangi og ógnandi látbragði.
Var stefnandi spurður hvort hann væri með hættulega hluti á sér. Þótt hann benti þeim á að hann væri á nærbuxunum einum fata var hann sviptur frelsi sínu, hann handjárnaður og tilkynnt að hann hefði réttarstöðu sakbornings. Ekki var honum þó kynnt sakarefnið.“
Maðurinn var síðan látinn liggja á grúfu, nánast nakinn, á meðan húsleit fór fram. Gekk það á í að minnsta kosti klukkustund. Síðan segir í stefnu:
„Engar trúverðugar skýringar hafa fengist á því hvers vegna stefnandi var handtekinn en engin merki voru um að hann ætti aðild að meintri vörslu skotvopna, sem var
forsenda húsleitarinnar, eða að hann lægi undir rökstuddum grun um slíka aðild.“
Í lögregluskýrslu um málið kemur fram að ekki hafi verið tekin nein skýrsla af manninum þar sem hann hafi ekki verið grunaður um brot. Segir í stefnunni að augljóst sé að ástæður fyrir handtökunni og því harðræði sem maðurinn hafi verið beittur í henni séu annaðhvort tengsl hans við soninn eða persóna hans og skoðanir, nema hvort tveggja sé. Síðan segir í stefnunni:
„Þar sem maðurinn var ekki grunaður um neina refsiverða háttsemi er í meira lagi furðulegt að honum hafi verið kynnt réttarstaða sakbornings og honum boðinn verjandi. Eina skýringin sem stefnandi fékk á handtökunni var sú að það væri vegna rannsóknar máls. Rannsókn máls, sem gesti á heimilinu er alls óviðkomandi, er augljóslega ekki nægilegt tilefni handtöku.“
Í lögregluskýrslu segir að ákveðið hafi verið að handtaka og færa í járn alla sem staðsettir voru á vettvangi til að tryggja návist og öryggi á vettvangi. Virðist þar vísað til 1. málsgreinar 90. greinar laga um meðferð sakamála. Um þetta segir í stefnunni: „Það lagaákvæði felur í sér heimild til að handtaka mann „ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, til að tryggja návist hans eða öryggi hans eða annarra ellegar til að koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum“. Ákvæðið felur aðeins í sér heimild til að handtaka grunaða og verður ekki túlkað rýmra en samkvæmt orðanna hljóðan.“
Segir að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu með aðgerðunum og gegn lögum um meðferð sakamála með því að upplýsa manninn ekki um sakarefnið, en honum var þó sagt á vettvangi að hann þyrfti ekki að tjá sig um það.
Í stefnunni segir að mannréttindi hafi verið brotin á manninum með aðgerðunum og brotið hafi verið gegn 1. málsgrein 67. greinar stjórnarskrárinnar, en þar segir:
„Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögun.“ – „Engin heimild er í lögum til að handtaka aðstandendur eða gesti þeirra sem grunaðir eru um brot,“ segir í stefnunni. Einnig er bent á að samkvæmt ákvæðum Mannréttindadómstóls Evrópu eigi frelsissviptur maður rétt á að vita tafarlaust um ástæður frelsissviptingarinnar.
Maðurinn krefst einnar milljónar króna í skaðabætur. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. október síðastliðinn.