Gustað hefur um Bjarna að undanförnu, en eins og kunnugt er tilkynnti hann afsögn sína sem fjármálaráðherra í gærmorgun eftir að álit umboðsmanns Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka var birt.
„Gengið undir Reykjanesbraut í morgunsárið,“ sagði Bjarni og birti mynd sem tekin var í undirgöngum í morgun. Óvíst er hvort einhver leynileg skilaboð sé að finna í færslu Bjarna, til dæmis hvort þetta þýði að hann muni taka við innviðaráðuneytinu sem fer meðal annars með samgöngumál.
Bjarni virðist að minnsta kosti sjálfur ekki útiloka neitt og telja margir nokkuð víst að hann setjist í annan ráðherrastól.
„Ég tók eina ákvörðun í [gær] og ég á eftir að taka ýmsar aðrar ákvarðanir, en ég útiloka það alls ekki að ég verði áfram í ríkisstjórninni,“ sagði Bjarni í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag.
Miðað við athugasemdir undir færslu Bjarna telja ýmsir að myndin sé einfaldlega vísun í betri tíma hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. „Það er ljós við enda ganganna,“ sagði einn og annar bætti við: „Það er bjart framundan.“