Biden ræddi við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, skömmu fyrir fréttamannafundinn og hét honum fullum stuðningi Bandaríkjanna vegna yfirstandandi átaka í Ísrael.
„Hér er um hreina og klára illmennsku að ræða. Það verður að stöðva hana. Við stöndum með Ísrael,“ sagði Biden við fréttamenn.
Í Washington eru orð Biden túlkuð sem samþykki Biden við þær öflugu aðgerðir sem Ísraelsher hefur gripið til í kjölfar árásanna á laugardaginn og sem samþykki við þær aðgerðir sem gripið verður til síðar. Reiknað er með að herinn hefji stórsókn gegn Hamas og stuðningsmönnum hryðjuverkasamtakanna á Gaza á næstu dögum. CNN hefur þetta eftir stjórnmálaskýrendum.
Biden varaði önnur ríki og samtök á svæðinu við að blanda sér í átökin. „Ég segi bara: „Látið það eiga sig.““ Þetta sagði hann margoft og lagði áherslu á að Bandaríkin séu með hersveitir á svæðinu, þar á meðal stærsta flugmóðurskip heims og F-16 og F-35 orustuþotur.