Eftirfarandi frásögn kemur af Instagram reikningi May Hayat ungrar ísraelskrar konu sem var viðstödd tónlistarhátíðina í Ísrael sem hamas-liðar réðust á síðasta laugardag.
Instagram færslan er þýdd úr hebresku yfir á ensku og þaðan yfir á íslensku, svo orðalag gæti verið frábruðið upprunalega textanum, en megindrættir textans ættu að vera skiljanlegir.
Frásögn May hefst hér:
Ég fór að vinna með kærustunni minni Liron á barnum í Nova-partíinu. Öll kvöldin og morgnana vorum við saman. Við skemmtum okkur svo vel.
Það var falleg sólarupprás og við fórum í átt að hjólhýsinu okkar til að drekka kaffi og hvíla okkur. Þá hófst martröðin – eldflaugar fóru að fljúga yfir höfuð okkar.
Tónlistin var stöðvuð og við biðum eftir að ástandið róaðist svo við gætum farið heim.
Allt í einu fæ ég símtal frá vinkonu minni sem segir að það sé verið að skjóta á hana og alla sem voru að keyra burt frá hátíðinni.
Ég hljóp til lögreglumannanna sem voru næstir mér til að biðja þá um að hjálpa fólkinu í bílunum en þá áttuðum við okkur á því að það væru margir hryðjuverkamenn á svæðinu og þeir væru mjög nálægt okkur. Það var ein stór ringulreið.
Við földum okkur í stjórnklefa lögreglunnar og við settumst öll á gólfið. Sumir grétu, sumir æptu, sumir fengu kvíðakast og sumir voru alveg þöglir.
Ég faðmaði alla sem grétu og náðu ekki andanum og Liron hjálpaði særðum á meðan ráðist var á okkur.
Hljóðin í byssuskotunum fóru að nálgast, lögreglumennirnir stóðu í dyragættinni tilbúnir með vopnin sín og horfðu hræddir hvor á annan og hrópuðu svo ÁRÁS!
Þeir sneru sér að okkur rétt áður en þeir yfirgáfu herbergið og sögðu okkur að hlaupa og biðja. Þeir fóru út og voru skotnir hver á fætur öðrum.
Hryðjuverkamennirnir skutu á herbergið og í smá stund var skelfileg þögn. Við yfirgáfum herbergið og hlupum á vígvöllinn og á meðan ég var að hlaupa sneri ég við og sá Liron. Hún var þarna en hljóp ekki með okkur.
Við hlupum eins hratt og við gátum þangað til við komum að sjúkrabíl og földum okkur á bak við hann. Skotin komu úr öllum áttum. Frá hægri, vinstri, fyrir aftan okkur og fyrir framan okkur.
Ég sá einhvern öskra á okkur: „Komdu hingað, það er öruggara.“ Ég hljóp í áttina að honum, enginn kom með mér. Við héldum áfram að hlaupa saman þangað til við sáum bifreið nálgast. Það var einn hátíðargestana sem bauð okkur að upp í bílinn sinn til að reyna að flýja með sér.
Við fórum í bílinn hans og um leið og hann byrjaði að keyra þá byrjuðu hryðjuverkamennirnir að skjóta á okkur. Við tókum U-beygju og keyrðum í hina áttina en það var skotið á okkur þar líka. Við snerum aftur á staðinn sem við vorum á í byrjun og allt í einu festist hjólið á bílnum í sandinum á meðan ennþá er skotið á okkur.
Við hlupum út úr bílnum þar til við tókum eftir gati í jörðinni. Við fórum inn, héldumst í hendur og báðum. Það vorum bara við tvö, maðurinn sem var að keyra bílinn hvarf.
Ég sagði við manninn sem var með mér: „Þekkir þú sögurnar um Helförina þar sem fólk þóttist vera dáið svo enginn tæki ekki eftir því? Þetta er það sem við þurfum að gera.
Hann þakti okkur sandi og við þögðum í um klukkutíma þangað til við fórum að heyra fótspor koma í átt að okkur og við báðum fyrir kraftaverki.
Þeir fundu okkur. 8 hryðjuverkamenn fyrir framan okkur. Ég lokaði augunum alveg því ég var viss um að þeir myndu skjóta okkur, en svo gripu þeir okkur og lyftu okkur upp. Þeir tóku símana okkar og allt sem við vorum með í vösunum. Þeir tilkynntu í talstöðvarnar sínu: „Við erum með 2 gísla í viðbót.“
Einn hryðjuverkamaðurinn byrjaði að tala við mig á arabísku og ég sagði honum að ég skildi hann ekki. Ég hrópaði ekki, ég varð ekki brjáluð, ég varð sinnulaus. Hann lagði jakka á mig á meðan hinir horfðu á mig eins og ég væri kjötstykki, því að ég var í hlýrabol. Önnur hönd hans hélt í höndina á mér, hin hélt á flugskeyti.
Við byrjuðum að ganga og ég sá að þeir voru að leita á jörðinni að hlutum eins og sígarettum og drykkjum. Þannig að ég hjálpaði þeim. Ég vildi ekki streitast á móti.
Sá sem var með mér hætti ekki að gráta og biðja um að lífi hans yrði þyrmt. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að hann þyrfti að hætta að gráta, „Þetta pirrar þá, hættu að gráta og þá verður allt í lagi.“ Þeir voru með hnífa og hamra. Ég áttaði mig á því að við vorum í hættu.
Fyrst hlustaði hann á mig en mjög fljótt fór hann aftur í sama ástand, datt á hnén og öskraði aftur og bað um lífi sínu yrði þyrmt. Og svo – öskraði hann ekki lengur. Þeir myrtu hann fyrir framan augun á mér. Ég var skilin eftir ein með þeim.
Einn þeirra tók bretti og sló mig á hausinn á nokkurra sekúndna fresti. Hinn hélt á hnífi og ógnaði mér á nokkurra sekúndna fresti. Það var mikilvægt fyrir þá að niðurlægja mig.
Hryðjuverkamaðurinn sem hélt í höndina á mér hrópaði að þeim og tók mig undir sinn verndarvæng. Við byrjuðum að ganga í átt að einum af bílunum þeirra og sem betur fer fóru bílarnir þeirra ekki í gang. Hryðjuverkamaðurinn sem ógnaði með hnífnum, sá sem fyrir stundu myrti manninn sem var með mér, sagði við mig „Ef þú reynir að flýja þá drep ég þig eins og ég drap vin þinn.“
Ég var standandi og hryðjuverkamaðurinn sem „tók mig undir sinn verndarvæng“, sagði mér að ég mætti fara. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera, en svo á einum tímapunkti byrjaði ég bara að hlaupa. Ég leit aftur fyrir mig á hlaupunum og sá að engu vopni var beint að mér, svo ég hélt áfram að hlaupa eins og brjálæðingur.
Ég faldi mig undir hátíðarsviðinu og lagðist við hliðina á þremur látnum einstaklingum. Ég smurði mig af blóðinu sem lak úr einu líkinu við hliðina á mér og þóttist vera dáinn í þrjár klukkustundir.
Þrjár klukkustundir sem mér fannst vera eilífð. Þrjár klukkustundir þar sem hryðjuverkamenn fara framhjá mér og skjóta á allt og alla og brenna allt sem í vegi þeirra verður, á meðan eldflaugar fljúga yfir mig. Í 3 klukkustundir ligg ég innan um lík og velti fyrir mér hvað verður um mig.
Allt í einu heyrði ég hebresku. Ég öskraði hátt „HJÁLP!“ Þetta voru hermenn, þeir komu og fóru með mig, ásamt öðrum sem lifðu af, í hjólhýsi með sjúkraliðum. Í bakgrunninum héldu skotárásirnar áfram og ég sá hluti sem ég ætla að hlífa ykkur við og lýsi ekki hér.
Þeir myrtu sál mína og ég vona að einn daginn geti ég orðið heil. En Liron, manstu eftir Liron frá upphafi sögunnar? Kærastan mín. Þeir myrtu hana. Þeir myrtu hetjuna mína og því miður mun enginn geta endurheimt hana.
Hér má sjá drónamyndband eftir hörmungarnar á hátíðinni: