Á dögunum opnaði Mike Newman sig um ástæðu þess að hann hvarf algjörlega úr sviðsljósinu eftir að þættirnir hættu. Mike fór með hlutverk strandvarðar með sama nafni og lék í samtals 150 þáttum, en aðeins David Hasselhoff og Jeremy Jackson léku í fleiri þáttum en hann á sínum tíma.
Mike er í dag 66 ára en hann var aðeins fimmtugur þegar hann greindist með Parkinson‘s-sjúkdóminn. Áður en greining lá fyrir höfðu aðstandendur hans tekið eftir breytingum á honum og ráðlögðu honum að leita til læknis. Það var svo árið 2006 að Mike var greindur með sjúkdóminn.
„Það breytist allt,“ segir Mike í viðtali við People en hann er fyrrverandi slökkviliðsmaður.
Mike þótti standa sig býsna vel á skjánum en hann virðist hafa verið orðinn afhuga leiklistinni þegar hann veiktist. Hans síðasta verkefni í leiklist kom þegar lokaþáttur Baywatch var sýndur árið 2000.
„Af hverju að vera í sjónvarpi ef maður þarf þess ekki,“ segir hann við People.
Hann mun þó koma fram í heimildaþáttum um Baywatch sem sýndir verða á næstunni, en þættirnir sem um ræðir verða í fjórum hlutum. Þar mun hann ræða samstarfsmenn sína í þáttunum, sem margir voru skrautlegir, og veikindin sem hann hefur glímt við síðustu ár.