Heimir Hallgrímsson, þjálfari Jamaíka hefur opnað dyrnar fyrir það að Mason Greenwood spili fyrir landsliðið nú þegar hann er mættur aftur á fulla ferð í boltanum.
Greenwood spilaði ekki fótbolta í átján mánuði eftir að unnusta hans sakaði hann um gróft ofbeldi og nauðgun. Lögregla rannsakaði málið en eftir ár í rannsókn var það fellt niður.
Greenwood er samningsbundinn Manchester United en var lánaður til Getafe og skoraði sitt fyrsta mark fyrir spænska félagið um helgina.
Greenwood er með tvöfalt ríkisfang og það er talið ólíklegt að hann snúi aftur í enska landsliðið en Jamaíka gæti opnað dyrnar.
„Við viljum hafa þá sem eru með mestu hæfileikana í okkar liði,“ segir Heimir um málið þegar hann var spurður um helgina. The Sun segir frá.
„Ef hann kemst í sitt gamla form, þá er hann svo sannarlega nógu góður til að hjálpa Jamaíka.“