Kona sem taldi sig vera í ástarsambandi við Barry Gibb, forsöngvara hljómsveitarinnar vinsælu Bee Gees, endaði nær slipp og snauð eftir, búin að missa meiri hlutann af eftirlaunasjóði sínum.
Í nýlegum þætti af Scamfish sem sýndur er á YouTube rásinni Catfished, útskýrði Wanda að hún vildi athuga hvort maðurinn sem hún hafði talað við væri raunverulega Gibb.
„Ég veit að hann elskar mig virkilega,“ sagði hún við þáttastjórnendur, en hún vissi ekki að hún hefði verið að senda þúsundir dala til svikara.
Aðspurð um hvernig kynni þeirra hefðu hafist sagði Wanda að hún hefði verið að skoða eina af Bee Gees aðdáendasíðunum á Facebook þegar möguleiki kom upp til að spjalla við söngvarann. Upphaflega fannst henni þetta vera grunsamlegt, en eftir því sem hún hélt áfram að spjalla við „Gibb„ varð spjallið sífellt nánara og þau voru byrjuð að tala um að hittast.
Hinn raunverulegi Gibb hefur verið giftur eiginkonu sinni Lindu Gray síðan 1970 og því efaðist Wanda vissulega um sambandsstöðu hans. Svo virðist sem svikahrappurinn hafi sagt að hann væri að yfirgefa konuna sína fyrir Wöndu og bað hann jafnframt Wöndu að byrja að leita að heimili fyrir þau saman í Oregon. Sá sem þóttist vera Gibb hvatti Wöndu einnig til að millifæra 11.000 dali til fasteignasala að nafni Aaron Williams, peninga sem komu úr eftirlaunasjóði Wöndu.
„Söngvarinn“ sagði Wöndu síðan að hann hefði ekki efni á að skilja við Gray, í kjölfarið var efnt til fjáröflunar og náðist að safna yfir 16 þúsund dölum frá aðdáendum sem vissu ekki að um svindl væri að ræða, rétt eins og Wanda.
„Gibb“ neitaði stöðugt að tala við Wöndu í síma eða í myndsímtali, en hún trúði samt statt og stöðugt að um söngvarann sjálfan væri að ræða. Svo virðist sem svikahrappurinn hafi ekki verið sá eini sem taldi aðdáendum trú um að hann væri Gibb, því Stephen sonur hans birti tilkynningu á Facebook þar sem hann varaði fólk við því að það hefði verið röð svikara sem þóttust vera faðir hans.
Þegar Wanda hafði samband við Scamfish teymið var hún hvött til að hætta að senda peninga til einstaklingsins sem hún hélt að væri söngvari Bee Gees. Teyminu tókst að hafa uppi á reikningum þess sem Wanda var í samskiptum við og var það einhver í Lagos í Nígeríu.
Wanda hefur síðan breytt bankaupplýsingum sínum og lokað öllum forritum þar sem hún átti í samskiptum við „Gibb.“ Teymið bað Wöndu um að fara til lögreglunnar og gefa skýrslu og leggja fram öll gögn um svikin.