Aðdáendur Quality Street, sælgætismolanna sígildu sem eru allt að því fastur gestur á íslenskum heimilum um jólin, geta tekið gleði sína á ný.
DV greindi frá því í fyrra að brúna molanum, Toffee Deluxe, hefði verið skipt úr fyrir annan mola, Honeycomb Crunch.
Óhætt er að segja að aðdáendur Quality Street hafi verið ósáttir og var blásið til herferðar á samfélagsmiðlum til að fá Nestlé, framleiðanda molanna, til að snúa þessari ákvörðun við. Sú herferð virðist hafa skilað árangri því brúni molinn er væntanlegur aftur í nóvember.
Brúni molinn á sér langa sögu í Quality Street-fjölskyldunni en hann varð til árið 1936.
Mikið fjaðrafok varð vegna ákvörðunar Nestlé í fyrra og gengu einhverjir svo langt að segja að jólin væru ónýt. Ákvörðunin var þó tekin að vel ígrunduðu máli, eða af þeirri ástæðu að of mikið af karamellumolum væru í öskjunni. Brúna molanum var því fórnað.
Og aðdáendur Quality Street geta glaðst enn frekar því molinn sem kynntur var til leiks í fyrra, Honeycomb Crunch, verður einnig í boði í ár. Það þýðir aðeins eitt: Nú verða þrettán tegundir í öskjunni í stað tólf.