„Ef maður getur einhvern veginn aðstoðað fólk við að búa sig undir það sem koma skal og deilt reynslunni eða reynt að hjálpa þá er maður tilbúinn til þess og líka landsbyggðarfólk þetta er erfiðara, þetta er lengra að sækja, þú ert ekki heima hjá þér og ert ekki með baklandið þitt kannski á erfiðustu dögunum,“
segir Hrefna Eyþórsdóttir formaður og starfsmaður krabbameinsfélags Austfjarða.
„Þegar ég var 31 árs þá greinist ég með stökkbreytingu í BRCA 2 geni og það er stór krabbameinsætt í kringum mig og þegar ég er svo 33 ára að þá finn ég ber í hægra brjósti og í kjölfarið kemur bara skellurinn og ég greinist með brjóstakrabbamein. Auðvitað er þetta rosalega erfitt og það er erfitt að búa út á landi og greinast með krabbamein. Þarna voru börnin mín eins árs og fimm ára,“ segir Helena sem var í burtu frá heimili sínu og börnum í sextíu daga árið sem hún var í krabbameinsmeðferðum.
„Og börnin ekki með mér og auðvitað þegar ég lít til baka þá er það kannski erfiðasti parturinn af meðferðinni. Það er þessi fjarvera frá börnum og missa af, fyrsta lestrarbókin, fyrsti skóladagurinn og svoleiðis, en auðvitað er maður bara gríðarlega þakklátur.“
Að sögn Hrefnu er gríðarlegt áfall að greinast með krabbamein. „En auðvitað hefur það breyst, hugmyndin að greinast með krabbamein, einu sinni var þetta bara dauðadómur, en í dag eru bara miklu betri meðferðir og lækningar og miklu meiri líkur á að þú sigrir baráttuna.
Manni finnst hlutirnir ekki eins sjálfsagðir og þeir voru og maður pirrar sig á færri hlutum af því að þeir eru ekki þess virði að pirra sig yfir.
Ég er rosa þakklát fyrir að geta borið Bleiku slaufuna og það merkir auðvitað það að ég læknaðist af mínum sjúkdómi og ég ber hana líka til heiðurs þeim sem hafa tapað baráttunni.“
Hrefna segir það svo gaman að sjá aðra bera Bleiku slaufuna af því henni finnst það vera fyrir hana og alla hina sem greinst hafa með krabbamein og sýnir það bakland sem þau eiga í samfélaginu.