Amma nokkur í Bretlandi reyndist klækjótt eins og refur en hún stal tæpum 30 milljónum af yfirmanni sínum til að gera vel við sig og sína. Hún notaði illa fengið fjármagnið í hjólhýsaferð, ferðalög til Spánar og svo notaði hún líka pening til að koma fyrir svokölluðum „pop-up“ bar í nýuppgerðum garði sínum. Amma fingralanga er nú á bak við lás og slá.
Um er að ræða hana Patriciu Bennett, sem er 69 ára að aldri. Upp komst um brot hennar eftir að hún fór á eftirlaun, en hún hafði starfað í tæp 25 ár hjá vinnuveitanda sínum og var hluti starfs hennar að halda utan um bankareikning rekstursins. Það var eftirmaður hennar sem veitti því athygli að ekki væri allt með felldu. Þegar betur var að gáð kom í ljós að amma fingralanga, Patricia tryggi starfsmaðurinn, hafði verið með fingurinn í smjörinu í minnst 13 ár.
Málið var þá tilkynnt til lögreglunnar sem hóf leit að peningunum sem höfðu horfið. Það er vinsælt í slíkum rannsóknum að hefja leitina á samfélagsmiðlum. Þar hafði Patricia deilt fullt af myndum frá ferðalögum sínum, sem og bar nokkrum sem hún og eiginmaðurinn höfðu komið fyrir í garði sínum.
Rétt er að geta þess að málið var hið óheppilegasta fyrir fjölskylduna þar sem að tengdasonur Patriciu er lögreglumaður og sonur hennar er fangavörður. Líklega neyðarleg saga fyrir næsta ættarmót, ef maður leyfir sér smá glens þó undirtónninn sé alvörugefinn.
Á daginn kom að Patrica hafði dregið að sér fé, og það í tug milljóna tali. Hún hafði ýmist lagt ránsfenginn inn á reikninga í sínu nafni, eða reikning eiginmanns hennar til 50 ára. Árið 2021 fannst henni komið nóg. Þá nennti hún ekki að vinna lengur og lagðist í helgan stein. Seinasti vinnudagur hennar var í júlí en þá komu samstarfsmenn færandi hendi, með gjafir, blóm og kort til að þakka henni kynning og samstarfið. Starfslokunum var svo fagnað í hádeginu með veglegu hlaðborði og Patricia kvödd með virtum eftir tæpa kvartöld í starfi.
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem selur raftæki, segist hafa upplifað gífurlega þungbær svik þegar upp komst um málið. Patricia hafi verið eins og fjölskyldumeðlimur, en þau hafi starfað saman í 23 ár. Hann greindi frá því fyrir dómi að reksturinn væri lítið fjölskyldufyrirtæki sem væri rekið af honum og bróður hans. Þeir hafi borið fullt traust til Patriciu allan þennan tíma og litið á hana sem fjölskyldumeðlim. Því séu svikin óbærileg. Reksturinn hafi gengið í gegnum erfiða tíma þar sem þeir bræður og jafnvel starfsmenn hafi styrkt fyrirtækið til að halda því á floti. Á sama tíma hafi Patricia setið, með full umráð yfir ekki bara reikningum rekstursins heldur líka persónulegum reikningum eigenda og fjölskyldu þeirra.
„Hefðum við vitað að hún væri í fjárhagsvandræðum þá hefðum við hjálpað henni. Það sem stendur upp úr núna eru svikin, þessi svik hennar gegn okkur öll þessi ár […] Patricia sá einnig um reikninga bróður míns, föður og föður hans líka og þeir upplifa sig líka illa svikna. Ég vakna enn á nóttunni og varla trúi því að þetta hafi gerst.“
Patricia var ákærð fyrir fjárdráttinn og játaði sök sína skýlaust. Hún hefur verið dæmd í 18 mánaða fangelsi. Hún var eins sakfelld fyrir hylmingu og brot gegn bókhaldslögum en hún hafði reynt að fela slóð sína með því að falsa greiðslur til viðskiptavina. Hún gætti þess að hver millifærsla væri það lítilfjörleg að það vekti ekki eftirtekt.
Verjandi Patriciu sagði fyrir dómi að skjólstæðingur hans væri miður sín og full eftirsjár. Hún beindi innilegri afsökunarbeiðni til yfirmanns síns og fyrrum samstarfsfélaga.
„Hún skammast sín niður í tær fyrir það sem hún gerði og mun bera þessa sektarkennd með sér. Hún áttar sig á því að hún hefur orðið fjölskyldu sinni til skammar. Hún hefur ekki lifað mjög íburðarmiklu lífi. Hvatinn að baki fjárdrættinum voru fjárhagsvandræði í kjölfar veikinda eiginmanns hennar. Eftir að hún komst upp með það fyrst, varð hún blinduð af þessum möguleika og sá ekki lengur að þetta var rangt. Hún hélt því áfram að stinga undan svo hún gæti borgað reikninga og viðhaldið leikritinu.“
Dómari sagði að ekki bara hefði Patricia brotið gegn hegningarlögunum heldur hefði hún misnotað það traust sem henni var sýnt í gegnum vinskap og áratugalangt samstarf.
„Ég átta mig á því hversu þungbær fangelsisvist mun reynast þér og fjölskyldu þinni – en þetta var vísvitandi óheiðarleiki í lengri tíma. Og eftir situr yfirmaður þinn illa svikinn.“