Þennan örlagaríka dag var Grewal að borða hádegismat með eiginkonu sinni, Alison, nálægt heimili þeirra í London. Alison hringdi í sjúkrabíl en það var of seint, hjartað hans var hætt að slá.
„Ég vissi, einhvern veginn, að ég væri dáinn,“ segir Grewal við PA Real Life.
„Mér fannst ég vera gjörsamlega aðskilinn líkama mínum. Það var eins og ég væri í einhverju tómarúmi en ég skynjaði allt í kringum mig og fann tilfinningar. Ég var ekki beint í einhverjum líkama. Ætli þetta hafi ekki verið meira eins og að synda í vatni. Þér líður eins og þú sért þyngdarlaus og aftengdur efnislega heiminum. Á einum tímapunkti var ég á ferð yfir tunglið og sá lofsteina og allan geiminn.“
Grewal sagði að honum hafi liðið eins og honum hafi staðið til boða „fullt af tækifærum, alls konar líf og endurholdgun. En ég vildi það ekki. Ég var mjög ákveðin að mig langaði að fara aftur í líkama minn, til míns tíma, til eiginkonu minnar og halda áfram að lifa.“
Sjúkraliðum tókst að koma hjarta Grewal aftur af stað. Hann var fluttur á sjúkrahús og var í dái í mánuð vegna súrefnisskorts í heila og glímir hann í dag við flogaveiki vegna þessa.
Leikarinn segir að upplifunin hafi breytt sýn hans á lífið. „Ég man allt sem gerðist þegar hjartað mitt stoppaði og ég hef reynt að setja það í listform,“ segir hann um listasýningu sem hann var með í London í september.
Grewal viðurkennir að hann hafi verið „vísindalega sinnaður“ og „tortrygginn“ fyrir atvikið, en nú trúi hann á eftirlífið.
„Ég er ekki jafn hræddur við dauðann, en á sama tíma er ég hræddari því ég hef áttað mig á hversu dýrmætt lífið er.“