Hjónin voru í sjö daga gönguferð með hundinum sínum þegar björninn réðst á þau. Talið er að þau hafi verið að lesa inni í tjaldi þegar björninn réðst til atlögu og varð þeim öllum þremur að bana.
Í frétt Calgary Herald kemur fram að hjónin hafi verið í samskiptum við ættingja sína og haldið þeim upplýstum um ferðir sínar.
Blaðið ræddi við Colin Inglis, frænda Dougs, sem segir að síðdegis síðastliðinn föstudag hafi þau látið vita að þau væru aðeins seinna á ferðinni en þau ætluðu sér. Þau hefðu því ákveðið að tjalda nálægt Red Deer-ánni í Panther-dalnum í Banff-þjóðgarðinum.
Nokkrum tímum síðar segist Colin hafa fengið óhugnanleg skilaboð frá hjónunum sem gáfu til kynna að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Í skilaboðunum stóð einfaldlega: „Bear attack bad“
Colin hafði samband við þjóðgarðsverði og lögreglu og var leitarhópur ræstur út. Það var svo um klukkan tvö aðfaranótt laugardags að lík hjónanna fundust. Skammt frá fannst svo sjö ára border collie-hundur hjónanna sem mátti sín lítils gegn bjarndýrinu.
Hjónin virðast hafa verið við öllu búin og voru þau til dæmis með bjarnarsprey með sér. Einn tómur slíkur brúsi fannst á vettvangi en hann virðist ekki hafa dugað til gegn dýrinu.
Í frétt New York Post kemur fram að þjóðgarðsverðir hafi komið auga á bjarndýr skammt frá og líklega hafi verið um að ræða sama dýr og varð hjónunum að bana. Björninn, sem var enn árásargjarn, var skotinn og drapst hann af sárum sínum. Talið er að um hafi verið að ræða 25 ára kvendýr.