Það var árið 1996 sem fólk tók eftir að sandháfar voru í tjörn á Carbrook golfvellinum, sem er vestan við Brisbane. Hann liggur við hlið tveggja áa, Logan og Albert.
Fjallað er um þetta undarlega mál í rannsókn sem var birt nýlega í Marine and Fishery Scineces chronicles.
Fram kemur að sandháfar séu óvenjulegir að því leyti að þeir geta lifað í saltvatni og ferskvatni. Þeir halda því oft til í ám. Yfirleitt halda þeir sig bara tímabundið í ám en dæmi eru um að þeir hafi verið í ferskvatni í töluverðan tíma og þrifist ágætlega.
Talið er að hákarlarnir hafi borist í tjörnina þegar árnar tvær flæddu yfir bakka sína en stundum gerist það á sumrin að öflug regnveður ganga yfir og árnar flæða yfir bakka sína. Golfvöllurinn er um 10 km frá ströndinni og því halda hákarlar oft til í ánum.
Tjörnin myndaðist í gamalli sandnámu einhvern tímann á árunum 1991 til 1996. Á þeim tíma flæddu árnar þrisvar sinnum yfir bakka sína og bárust hákarlarnir með vatnselgnum. Þegar dró úr flóðunum, sátu þeir eftir fastir í tjörninni.
Tjörnin er um 700 metrar á lengd og 380 metrar á dýpt. Engin formleg talning var gerð á fjölda hákarla í henni en þeir sáust oft, komu oft nærri bakkanum. Stjórnendur golfvallarins voru ánægðir með að hafa þá í tjörninni og hákarlarnir voru gerðir að lukkudýri golfvallarins.
Þeir voru líklega mjög ungir þegar þeir bárust í tjörnina en þrifust ágætlega í tjörninni og urðu um 3 metrar á lengd. Talið er að þeir hafi haft viðurværi af nokkrum fiskitegundum sem hafi borist í tjörnina á sama tíma og þeir.
Síðast sáust hákarlar í tjörninni 2015. Flóð tveimur árum áður gæti hafa gert sumum þeirra kleift að komast út í árnar á nýjan leik. Vísindamenn telja að þeir sem eftir urðu hafi síðan drepist. Talið er að engir hákarlar séu lengur í tjörninni.
Þetta mál sýnir hæfileika þessara fornu rándýra til að laga sig að nýjum aðstæðum.