Sjómenn hafa tengt þessa fjölgun dauðsfalla við „nýja hegðun“ háhyrninganna þar sem þeir fá sér að éta fyrir framan trollin sem togararnir eru að toga.
Groundfish Forum, samtök sjómanna í Seattle, segja að sjómenn hafi tekið eftir auknum fjölda dauðra háhyrninga nærri skipum félagsmanna á þessu ári. Vitað sé að háhyrningar streymi á veiðislóðir til að gæða sér á því sem verið er að veiða en samt sem áður viti sjávarlíffræðingar ekki af hverju þetta hefur gerst.
Háhyrningar eru mjög greindir og hugmyndaríkir og geta lært af hver öðrum. Þeir eru duglegir við að nýta sér fiskveiðar manna til að komast yfir fæðu eftir því sem segir í skýrslu frá NOAA frá því á síðasta ári. Línuveiðar heilla þá sérstaklega því þeir geta auðveldlega tekið fiskinn af krókunum eftir að hann hefur bitið á.
Þessi tækifærismennska háhyrninganna veldur því stundum að þeir festast í veiðarfærum, slasast og drepast jafnvel.