Live Science segir að sjaldgæf, sprengistjarna, sem birtist þrisvar á einni mynd, geti hjálpað vísindamönnum við að leysa gamla ráðgátu um ósamræmi í alheiminum.
Sprengistjarnan, sem nefnist SN H0pe, uppgötvaðist fyrst á myndum sem voru teknar með James Webb sjónaukanum í mars. Á þessum myndum sést stjarnan eins og bogi af appelsínugulu ljósi með þrjá bjarta bletti sem umkringja stjörnuþoku þyrpinguna PLCK G165.7+67.0 (G165), sem er um 4,5 milljarða ljósára frá jörðinni.
Ljósboginn er afleiðing þyngdaraflslinsu, áhrifa sem gætir þegar ljós frá fjarlægum hlut, eins og sprengistjörnu, fer í gegnum tímarúm sem hefur aflagast vegna massífs hlutar í forgrunni, til dæmis stórrar vetrarbrautar, sem er á milli hins fjarlæga hlutar og vísindamanns sem er að rannsaka hlutinn. Þetta virkar einnig eins og stækkunargler og stækkar hlutinn og gerir vísindamönnum auðveldara fyrir að rannsaka hann.
Í grein, sem birtist nýlega á vef BigThink.com, segir Ethan Siegel, stjarneðlisfræðingur og vísindafræðari, að hugsanlega geti SN H0pe hjálpað til við að leysa ákveðna ráðgátu um ósamræmi í alheiminum. Þetta ósamræmi snýst um útþenslu alheimsins.