Í upphafi aldarinnar þróuðust málin í rétta átt en nú eru tveir þættir sem gera baráttuna gegn malaríu erfiðari. Í fyrsta lagi er að fjárveitingar til baráttunnar gegn malaríu hafa dregist saman síðustu árin og í öðru lagi hefur ný mýflugutegund tekið sér bólfestu í álfunni.
Hún heitir Anopheles stephensi og barst frá Íran eða Indlandi 2012.
Á síðasta ári braust stór malaríufaraldur út í Dire Dawa í Eþíópíu en þar búa um 500.000 manns. Svæðið er yfirleitt ekki mjög þjakað af malaríu og 2019 voru aðeins 200 tilfelli skráð þar. En frá janúar og fram í maí á síðasta ári voru 2.400 tilfelli skráð og það utan regntímabilsins en þá eru minnstar líkur á að fólk smitist.
Rannsókn, sem var gerð af American Society of Tropical Medicine and Hygiene, leiddi í ljós að nær allar mýflugurnar á svæðinu voru af ætt Anopheles stephensi. Vandinn með þær er að þær hafa þróað með sér ónæmi gegn sumum af algengustu tegundum skordýraeiturs og auk þess geta þær lifað allt árið í vatnsgeymum og ám.
Það er sem sagt ekki bara lengur á regntímanum sem malaría er mikil ógn og það er erfiðara að berjast við mýflugurnar. Vísindamenn segja að Anopheles stephensi geti einnig breytt stöðu mála á alvarlegan hátt með að breiða malaríu út í stórborgunum en þær hafa að mestu sloppið við malaríufaraldra fram að þessu.