Það er ekki fyrir hvern sem er að eiga bíl í borgríkinu Singapúr í Suðaustur-Asíu. Sá sem vill eiga bíl þarf að punga út að lágmarki 104 þúsund singapúrskum dollurum, eða 10,5 milljónum króna á núverandi gengi. Svo þarf að kaupa bílinn.
Fyrirkomulagið er þannig að fólk kaupir sér leyfi sem gildir í tíu ár. Verðið á þessum leyfum hefur hækkað umtalsvert á undanförnum árum og hækkar eftir stærð og vélarstærð ökutækja.
CNN greinir frá því að þessu kvótakerfi hafi verið komið á árið 1990 til að takmarka bílaumferð og mengun í borginni sem telur 5,9 milljónir íbúa.
Ekki eru allir á eitt sáttir við þetta háa verð og eru bílasalar í þeim hópi. Ricky Goh segir að hann hafi næstum fallið í yfirlið þegar hann sá verðhækkanirnar á dögunum. „Salan hefur verið mjög léleg og þetta er ekki til að bæta ástandið.“
Í ljósi þess að leyfið kostar rúmar 10 milljónir króna nýta langflestir íbúar sér almenningssamgöngur til að komast á milli staða. Þá nota einnig margir íbúar létt bifhjól en tíu ára leyfi fyrir slík hjól kosta rétt rúmlega eina milljón króna.