Brianna Pinix, þrítug kona frá New Jersey, er atvinnulaus eftir að myndband af henni hella sér yfir nokkra þýska túrista í járnbrautarlest í New York rataði á netið.
Óvíst er hvað varð til þess að Brianna réðst að mönnunum með fúkyrðum en í myndbandinu heyrist hún meðal annars segja: „Látum ekki innflytjendur taka yfir landið okkar. Hvað segið þið um að drullast úr landinu okkar.“
Brianna, sem starfaði hjá ráðningarfyrirtækinu Capital Rx, virðist hafa verið töluvert ölvuð þegar atvikið átti sér stað fyrr í þessari viku en hún var rekin úr starfi eftir að myndbandið birtist á netinu.
Kærasti Briönnu var með henni þegar atvikið átti sér stað og þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir hans til að róa hana gekk það ekki. „Brie, ekki gera þetta. Þú verður handtekin,“ sagði hann meðal annars. „Ég elska þig en slepptu mér. Ég get séð um mig sjálf,“ svaraði Brianna þá. „Hættu þessu núna og sestu niður, annars tala ég aldrei við þig aftur,“ sagði kærastinn.
Ferðamennirnir virtust ekki kippa sér mikið upp við atvikið en einn stóð þó upp úr sæti sínu og var sýnilega pirraður á afskiptaseminni. Brot úr myndbandinu má sjá hér að neðan: