Þetta er niðurstaða kortlagningar sem franska jafnréttisráðið stóð fyrir. The Guardian skýrir frá þessu og segir að farið hafi verið yfir milljónir myndbanda á stærstu alþjóðlegu klámsíðunum.
Niðurstaða rannsóknarinnar var kynnt fyrir ríkisstjórninni nýlega. Í henni er lagt til að lögum verði breytt þannig að hægt verði að lögsækja klámframleiðendur sem og að hægt verði að fjarlægja klámefni til að vernda þá sem eru í myndefninu.
Rannsóknin tók 18 mánuði og var rætt við fjölda fólks og horft á milljónir mynda, þar af margar „sem sýndu „konur“ sem voru niðurlægðar, hlutgerðar, sviptar mannlegri virðingu, beittar ofbeldi, pyntaðar og látnar sæta meðhöndlun sem stríðir gegn mannlegri virðingu og frönskum lögum,“ að því er segir í rannsókninni.
Fram kemur að töluverður hluti myndanna innihaldi pyntingar og í rannsókninni kemur fram að það skipti engu máli hvernig samningar, þeirra sem tóku þátt í myndunum, hljóma því þeir séu ógildir út frá lagalegu sjónarmiði því manneskja geti ekki veitt samþykki fyrir pyntingum, kynferðislegri misnotkun og mansali. Einnig kemur fram að það að taka ofbeldi upp sé ólöglegt og það eigi að refsa fyrir það.
Í rannsókninni eru frönsk stjórnvöld gagnrýnd fyrir að hafa ekki aðhafst neitt varðandi klámiðnaðinn áratugum saman.
Sylvie Pierre-Brossolette, forstjóri frönsku jafnréttisstofnunarinnar, sagði að árið 2023 sé engin ástæða til að sætta sig við ólöglega hluti af þessu tagi þar sem óhugnanlegum pyntingum sé beitt. Hún benti á að frönsk börn byrji mjög ung að nota klám og sagði klámefnið vera „skóla fyrir kynferðislegt ofbeldi“ sem verði að stöðva.
„Við verðum að segja stopp,“ sagði Bérangére Couillard, jafnréttisráðherra.