Þetta kemur fram í grein eftir Dirk Schulze-Makuch, stjarneðlisfræðing við Tækniháskólann í Berlín, á vef Big Think. Aðrir vísindamenn eru fullir efasemda um þessa kenningu hans.
Schulze-Makuch segir að NASA hafi hugsanlega fyrir slysni uppgötvað líf á Mars þegar Viking geimförin lentu þar en einnig drepið það fyrir slysni áður en vísindamenn áttuðu sig á að um líf væri að ræða.
Í greininni segir hann að Viking geimförin hafi tekið steina upp af yfirborðinu og gert tilraunir á þeim. Þær hafi síðan drepið lífverur sem voru í þeim.
Schulze-Makuch segir að mörgum kunni að finnast þessi tilgáta hans ögrandi en bendir á að svipaðar örverur lifi hér á jörðinni og ekki sé hægt að útiloka að þær geti verið að finna á Mars.
Viking 1 og 2 geimförin lentu á Mars 1976 og gerðu nokkrar tilraunir þar. Niðurstöður þeirra þóttu ruglandi og valda vísindamönnum enn heilabrotum. Sumar þeirra skiluðu niðurstöðum sem styðja kenningar um að líf sé að finna á Mars en aðrar skiluðu algjörlega gagnstæðri niðurstöðu. Þegar upp var staðið varð þetta til að flestir vísindamenn töldu að geimförin hefðu ekki fundið vísbendingar um líf á Mars.