„Hann var maður sem gerði aldrei flugu mein og bar ekki hönd yfir höfuð sér ef á hann var ráðist, lét allt yfir sig ganga,“ segir systir mann sem var myrtur í íbúð í fjölbýlishúsi í Bátavogi laugardagskvöldið 21. september.
Maðurinn átti við fíkn að stríða seinni ár ævinnar og ýmsa erfiðleika en systir hans bendir á að hann hafi engu að síður verið góðmenni sem vildi öllum vel. „Hann var friðsamur maður og vildi bara frið og ró í kringum sig,“ segir hún.
Maðurinn var 58 ára gamall. Sambýliskona hans, 42 ára gömul, situr í gæsluvarðhaldi, grunuð um að hafa orðið manninum að bana. Var hún handtekin á vettvangi. Áverkar fundust á manninum sem talið er að hafa leitt til dauða hans.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, upplýsti DV í dag um að gæsluvarðhald yfir konunni hefði verið framlengt til 18. október næstkomandi. Lögreglustjórinn í Reykjavík óskaði eftir því og Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um gæsluvarðhaldið.
DV spurði Ævar hvort sá möguleiki væri fyrir hendi að annar aðili en konan sem situr í gæsluvarðhaldi hafi orðið manninum að bana. Ævar neitaði með öllu að tjá sig um þann möguleika.