Skotinn Brian Morrison varð fyrir nettu áfalli síðastliðinn sunnudag þegar hann missti nær alla stjórn á rafmagnsjepplingi sínum af tegundinni MG ZS EV.
Brian, sem er 53 ára, var á leið heim úr vinnu á sunnudag þegar bilun varð í bílnum með þeim afleiðingum að hún festist á tæplega 50 kílómetra hraða. Brian gat ekki með nokkru móti hægt á bifreiðinni en hann gat þó notað stýrið til að sveigja fram hjá öðrum ökutækjum.
Daily Mail segir frá því að Brian hafi hringt í lögreglu og útskýrt málið fyrir henni. Tókst Brian loks að stöðva bifreiðina með því að aka henni á lögreglubíl.
„Ég áttaði mig á því að eitthvað var að þegar ég kom að hringtorgi og ætlaði að hægja á mér,“ segir hann og bætir við að hann sé þakklátur fyrir að þetta hafi gerst rétt eftir klukkan 22 á sunnudagskvöldi þegar umferð var tiltölulega lítil.
Þá var hann heppinn að þetta gerðist á löngum og beinum vegarkafla en ekki á vegarkafla þar sem eru til dæmis gangbrautir eða margar beygjur.
Brian var eðli málsins samkvæmt mjög brugðið enda ekki skemmtileg upplifun að vera „rænt“ af eigin bíl. Óvíst er hvað fór úrskeiðis í tölvukerfi bílsins en rannsókn á málinu stendur yfir.