fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Íslenskir drengir mega framvegis bera sama nafn og bandarísk sjónvarpsstöð

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 4. október 2023 11:00

Höfuðstöðvar bandarískrar sjónvarpsstöðvar/Wikimedia. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurður mannanafnanefndar frá 25. ágúst síðastliðnum var uppfærður 2. október með séráliti en úrskurður varðar erindi sem nefndinni barst um að karlkyns nafnið Fox yrði samþykkt sem eiginnafn og yrði þar með hluti af leyfilegum íslenskum fornöfnum.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt er fox það orð sem notað er á ensku yfir dýrategundina refur. Einnig er rekin sjónvarpsstöð – raunar net sjónvarpsstöðva – undir heitinu Fox í Bandaríkjunum. Hluti af því er t.d. fréttastöðin umdeilda Fox News.

Í úrskurði mannanafnanefndar um eiginnafnið Fox er horft til ákvæða 5. greinar laga, númer 45/1996, um mannanöfn sem uppfylla þarf til að samþykkja nýtt eiginafn. Meðal þeirra er að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Segir mannanafnanefnd að þegar kemur að samþykki Fox sem eiginnafns reyni einkum á þetta ákvæði laganna.

Vísar mannanafnanefnd í að nafnorðið fox komi fyrir í Jónsbók og merki þar flærð eða pretti. Það sé einnig notað í síðari alda máli yfir tófu, skapvarg, meinhorn. Mannanafnanefnd telur að nafnorðið hafi þannig neikvæða merkingu. Til hins sé þó að líta að nafnið Fox hafi líklega ekki sömu þýðingu í huga almennings í dag og ólíklegt sé því að það geti orðið nafnbera til ama.

Þar af leiðandi er það úrskurður mannanafnanefndar að karlkyns nafnið Fox skuli samþykkt sem eiginnafn í íslensku og fært í mannanafnaskrá.

Segir um ókvæðisorð að ræða sem börn ættu ekki að bera

Einn nefndarmanna, Hrafn Sveinbjarnarson, sem starfar við Stofnun Árna Magnússonar og var tilnefndur í nefndina af íslenskri málnefnd er hins vegar ekki sammála úrskurðinum og skilaði séráliti.

Hrafn segir að íslenska hvorugkynsorðið fox sé að finna í lögbók Íslendinga frá 13. öld, Jónsbók, og útgáfum hennar síðan. Samkvæmt skýringum Páls Vídalíns, frá 1854, á fornyrðum Jónsbókar segi um fox:

„Í Kaupabálki 11 „Enginn skal öðrum selja fox eður flærð“. Í Kaupabálki 14 er talað um „kaupfox“ og í Kaupabálki 22 er talað um „veðfox“. Í lögbókinni Járnsíðu er það kallað veðflærð sem í Kaupabálki 2 er aðeins kallað fox. Átt er við annarra manna eign sem seld er eða lögð að veði án umboðs.“

Hrafn segir merkingu orðsins fox vera svik, fals eða undirferli. Orðið sé líklega komið af franska orðinu faux sem þýðir fals eða svik, upprunnið af orðinu falsus í latínu sem sé dregið af sagnorðinu fallere, en af því sé fals og falskur dregið.

Hrafn segir í áliti sínu að fox sé einnig til um ref í íslensku samkvæmt þýðingu sem eignuð er síra Katli Jörundssyni á orðakveri sem Hadrianus Junius samdi og kom út í Antwerpen 1577. Í þessari þýðingu Karls sé fox meðal 19 íslenskra þýðinga á latnesku orðunum vulpes, vulpicula, á milli orðanna grenlægja og hólgýgja.

Refsmerking orðsins fox komi einnig fram í málfræðiriti Runólfs Jónssonar árið 1651.

Orðið fox sé annars notað sem niðrandi um kvenfólk samkvæmt orðabók Sigfúsar Blöndals, en þar sé það skýrt sem norn eða skass.

Í þjóðsögu í safni Jóns Árnasonar sé haft eftir tröllskessu sem spyr eftir bóndadóttur sem hefur lagt á flótta úr helli hennar með ránsfeng „Sástu ekki fox fox fara hér hjá …“ og sé hægt að túlka orðið þar í merkingunni þjófur eða svikahrappur.

Þar af leiðandi er það niðurstaða Hrafns að merking íslenska orðsins fox að fornu og nýju sé neikvæð. Það sé notað sem ókvæðisorð. Þess vegna sé samþykkt hvorugkynsorðsins fox sem karlkyns eiginnafns vafasamt, það eigi í yngri merkingu við konur. Að það færist á mannanafnaskrá leiði til þess að barn geti hlotið ókvæðisorð sem eiginnafn. Það séu mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem séu ósiðleg, niðrandi eða meiðandi. Samhengi íslenskrar tungu rofni fljótt ef taka eigi upp ókvæðisorð sem eiginnöfn á grundvelli misskilnings eða ókunnugleika. Ríkir almannahagsmunir standi til þess að íslensk tunga sé varin fyrir slíku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“