Þetta er í fyrsta sinn sem hún ræðir opinberlega um meint svik hans.
„Mér hefur aldrei liðið jafn illa,“ segir hún í Netflix-heimildaþáttaröðinni Beckham sem kom út á streymisveitunni í dag.
Sjá einnig: Hittumst með leynd á bílastæðum – „Ekki eins subbulegt og það hljómar“
Þáttaröðin fjallar um samband hjónanna, uppvöxt David og farsælan íþróttaferil hans.
Victoria og David kynntust árið 1997 og gengu í það heilaga árið 1999. Þau eiga saman fjögur börn; Brooklyn, Cruz, Romeo og Harper.
Árið 2003 flutti David til Spánar til að spila með Real Madrid. Á þeim tíma áttu þau tvo syni og var Victoria eftir í Bretlandi til að hugsa um drengina. Seinna sama ár fór þrálátur orðrómur á kreik um að knattspyrnumaðurinn hafi haldið framhjá.
Hjónin nefna ekki konurnar á nafn, en Rebecca Loos og Sarah Marbeck hafa báðar haldið því fram að þær hafi stundað kynlíf með fyrrverandi knattspyrnumanninum á þessum tíma. Málið rataði í fjölmiðla og stuttu seinna flutti Victoria til Spánar.
„Þetta var svo erfiður tími því okkur leið eins og heimurinn væri á móti okkur,“ segir hún.
„En ef ég á að vera hreinskilin þá vorum við á móti hvort öðru.“
Victoria segir að þetta hafi verið „martraðakenndar“ aðstæður.
Fatahönnuðurinn segir að fyrir Madrid hafi hjónaband þeirra verið sterkt, en allt hafi breyst á Spáni. „Og það er sorglegt. Ég get ekki einu sinni lýst því hversu erfitt þetta var og hvaða áhrif þetta hafði á mig. Þetta var algjör sirkús og allir elska það þegar sirkúsinn kemur í bæinn, er það ekki? Nema þú sért hluti af honum.“
David opnaði sig einnig um þetta tímabil í Netflix-þættinum.
„Ég veit ekki hvernig við komumst í gegnum þetta, í fullri hreinskilni. Victoria er mér allt, að sjá hana svona særða var ótrúlega erfitt. En við berjumst fyrir því sem skiptir okkur máli og þarna þurftum við að berjast fyrir hvort öðru, við þurftum að berjast fyrir fjölskyldu okkar. Og það sem við áttum var þess virði að berjast fyrir.“
Ástin sigraði og tókst hjónunum að komast yfir þennan erfiða kafla. Ári eftir að Victoria flutti til Spánar eignuðust þau þriðja barn sitt, drenginn Cruz, í febrúar 2005. Þau hafa nú verið gift í 24 ár.
Þú getur horft á þáttaröðina „Beckham“ á Netflix.