Óli Björn skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segist hafa orðið fyrir töluverðum vonbrigðum.
„Í fallegum 24 blaðsíðna bæklingi er lítið bitastætt og fátt nýtt. Engar nýjar hugmyndir eða tillögur um breytt skipulag heilbrigðiskerfisins,“ segir hann meðal annars.
Lögð eru til fimm þjóðarmarkmið í bæklingnum: Að fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi, farið verði í þjóðarátak í umönnun eldra fólks, fólk fái öruggt aðgengi að þjónustu óháð búsetu, heilbrigðisstarfsfólk fái meiri tíma með sjúklingum og að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu verði á forsendum hins opinbera.
Í grein sinni segir Óli Björn að markmiðin fimm séu almenn og svo sjálfsögð að draga verði í efa að það finnist Íslendingur sem setur sig upp á móti þeim.
„Þjóðarmarkmiðunum ætlar Samfylkingin að ná með gamalkunnugum aðferðum vinstrimanna; auka útgjöldin. Vinstrimenn mega varla sjá vandamál eða verkefni án þess að bjóðast til að leysa þau með auknum útgjöldum. Og útgjöldin verða fjármögnuð með aukinni skattheimtu,“ segir hann og bætir við að Samfylkingin boði hækkun ríkisútgjalda til heilbrigðismála á komandi árum um 1-1,5% af vergri landsframleiðslu.
„Þetta jafngildir 38 til 57 milljörðum króna miðað við landsframleiðslu síðasta árs. Auðvitað er forðast að tala um skattahækkanir,“ segir hann og bætir við að Kristrún Frostadóttir hafi ekki lagt spilin á borðið þegar kemur að aukinni skattheimtu. „Að „sameinast um að sækja tekjur“ hljómar betur en hækkun skatta,“ segir hann.
Óli Björn játar að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með „öruggu skrefin“ sem Samfylkingin hefur boðað.
„Ég átti von á ítarlegum tillögum um breytt skipulag og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Þær vonir voru reistar á sandi. Sem sagt: Samfylkingin er ekki að boða nýja stefnu – hvað þá nýja hugsun – í heilbrigðisþjónustu. Þjóðarmarkmiðin eru almenn og sett fram þannig að allir geta tekið undir. Það eina sem liggur fyrir er löngun Samfylkingarinnar til að auka útgjöld til heilbrigðismála um tugi milljarða á ári með því að taka stærri sneið af þjóðarkökunni.“
Óli Björn segir að lokum að það blasi við að á nýju kjörtímabili muni skattar og álögur á einstaklinga og fyrirtæki hækka verulega komist Samfylkingin í ríkisstjórn. Og líklega verði fyrirmyndin sótt til Reykjavíkurborgar.