Þetta sagði Christian von Buchwald, prófessor og yfirlæknir á háls-, nef- og eyrnadeild danska ríkissjúkrahússins í Kaupmannahöfn í samtali við Jótlandspóstinn.
Ein helsta ástæðan fyrir því að nefið er betra er að það síar hættulegar agnir úr loftinu og þar með komast þær ekki niður í lungun. „Nefhárin virka sem sía og slímhimnan í nefinu og nefholurnar eru svolítið eins og hreinsistöð sem fangar ofnæmisvalda eins og frjókorn, bakteríur, veirur og svo framvegis. Ef þú vilt styrkja slímhimnurnar í nefinu, getur þú skolað nefið með saltvatni,“ sagði hann.
Önnur góð ástæða til að anda frekar í gegnum nefið en munninn er að nefið er betra í að flytja súrefni til líkamans en munnurinn. „Við öndum allt að 20.000 lítrum af lofti að okkur daglega. Í gegnum nefið kemst loftið niður í lungun með rétta hitastigið og rakastigið. Það gerir að verkum að súrefnisflutningurinn verður eins og best verður á kosið,“ sagði hann.
Byggingarlag nefsins og slímhimnurnar hjálpa loftinu einnig við að ná flæða á réttan hátt, svo það fari ekki í hringi. Það gerir að verkum að auðveldara er að anda í gegnum nefið.
En þegar kemur að líkamlegri áreynslu, eins og í íþróttum, þar sem fólk mæðist þá tekur munnurinn við önduninni og það á hann að gera að sögn von Buchwald.