Margir eyða kvöldunum í sófanum við sjónvarpsgláp og jafnvel „tilheyrandi“ nasli með. En það er einmitt þetta „nasl“ sem getur gert fólki erfitt fyrir við að sofa.
Mirror hefur eftir Denise Lordache, svefnsérfræðingi og meðferðarfulltrúa hjá JoySpace Therapy, að það að neyta sælgætis og sykraðra vara geti raskað svefninum mjög mikið og að fólk eigi ekki að borða sælgæti og sykraðar vörur á kvöldin.
Denise sagði að svefn sé hornsteinn góðs heilbrigðis og hafi áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og vellíðan. En því miður geti sykur, sem sé vel þekkt örvunarefni, komið í veg fyrir góðan svefn.
„Hann eykur glúkósamagnið hratt sem veldur orkuskorti og árvekni, nákvæmlega öfugt við það sem þú ert að reyna þegar þú ferð í rúmið,“ sagði hún.
Hún sagði að ef fólk neytir sykurs fyrir háttatíma þá valdi það því að blóðsykurinn nái hratt háum gildum en hrapi svo hratt aftur, þetta valdi því að líkaminn losi insúlín til að ná stjórn á glúkósamagninu. Þessar sveiflur valdi andvöku og hvíldarlausum svefni því líkaminn sé að reyna að ná tökum á blóðsykurmagninu. Sykur geri okkur einnig árvökul því hann sé „skammvinnt orkuskot“.