Hagverkfræðingurinn Thomas Möller, og einn af stofnendum Viðreisnar, segir í raun algjörlega galið að þessi litla eyjaþjóð, sem Ísland er, kjósi heldur að bíta á jaxlinn fremur en að auka alþjóðlegt samstarf, taka upp nýjan gjaldmiðil og hætta að sóa endalausum peningum í gjaldeyrisskiptakostnað.
Thomas er nýjasti gesturinn í Kalda pottinum frá sviðinu í Gömlu Borg í Grímsnesi. Thomas er hagverkfræðingur frá Tækniháskólanum í Berlín, með MBA gráðu frá HR og hefur í gegnum árin starfað við stjórnun og rekstur fjölmargra fyrirtækja hérlendis, meðal annars hjá Olís, Eimskip, Thorarensen lyf og Rekstrarvörum. Í þættinum ræða þeir Mummi Týr Þórarinsson, örmyntina okkar, íslensku krónuna, kosti Evrópusambandsins fyrir örþjóð eins og Ísland og stöðu Íslands í evrópsku samhengi.
Thomas bjó lengi í Berlín þegar hann var þar við nám og bendir á að þar megi glöggt sjá smæð Íslands, en allir íbúar landsins kæmust fyrir í einu hverfi stórborgarinnar þýsku. Raunin sé sú að Ísland sé nú þegar komið að tveimur þriðju hlutum inn í Evrópusambandið í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, EES. Sjálfstæðismenn hafi þó engan áhuga á að stíga skrefið til fulls og þess vegna varð Viðreisn til.
Í gegnum EES sé Ísland í raun að innleiða flest lög og flestar reglur sem stafi frá Evrópusambandinu, en á sama tíma hafi Ísland enga aðkomu að löggjafarvaldinu þar, eða ráðherranefndinni. Við séum því í raun að láta allt þegjandi og hljóðalaust ganga yfir okkur, höfum enga rödd og engin áhrif. Þeir stjórnmálamenn sem helst tali gegn aðild segist á sama tíma ekki vilja slíta EES-samstarfinu, sem feli í raun í sér framsal á fullveldi okkar. Með inngöngu í ESB fengi Ísland rödd og aukið fullveldi.
„Þá værum við komin við borðið. Í dag erum við ekki einu sinni inni í fundarherberginu, við erum bara úti í garði – úti á götu.“
Einhver gífurleg þrjóska virðist einkenna ríkisstjórnina hér á landi sem máli fulla aðild sem einhvers konar grýlu. Hér hafi almenningur verið sannfærður að með inngöngu þá séum við að afsala öllum landbúnaði, orkuauðlindum, hreina vatninu okkar og öllum fisk til stærri þjóða ESB. Thomas segir þetta fjarri lagi. ESB hafi engan áhuga á fiskinum okkar, fyrir utan mögulega regluvæðingu á stofnum sem flakka milli svæða, sem íslenskir stofnar geri ekki.
Thomas furðar sig einnig á því að hvorki hagsmunasamtök neytenda hér á landi, né samtök atvinnurekenda, hafi barist fyrir fullri aðild. Hér sé um stærsta hagsmunamál þessa hópa að ræða. Skemmst sé að nefna lánakjörin, en staðreyndin sé sú að þau fyrirtæki hér á landi sem hafi kost á því að losa sig undan krónunni, hafi gert það. Þetta séu hátt í 300 fyrirtæki í dag.
Krónan kosti okkur. Það sé staðreynd. Á einum degi sé krónan að kosta Ísland um 800 milljónir eða um 200-300 milljarða á ári hverju. Þetta sé gífurleg fórn til þess eins að halda uppi örgjaldmiðli sem á sama tíma geri það að verkum að íslensk heimili þurfa stöðugt að vera á tánum því lán þeirra gætu stökkbreyst á svipstundu.
„Ég hef þá kenningu að við Íslendingar séum heimsmeistarar í að bíta á jaxlinn. Við erum með hæstu vexti á Vesturlöndum og við segjum bara – já þetta hlýtur að þurfa að vera svona. Við erum með hæsta matarverð m.v. Norður Evrópu, við erum með einhverja mestu skatta á Vesturlöndum og fólk bara bítur á jaxlinn og hugsar já þetta hlýtur að vera svona.“
En svona þarf þetta ekki að vera. Þetta bitni á flestum hliðum þjóðfélagsins. Skapi óstöðugleika og óvissu fyrir heimilin og skekki samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
Fjórði stærsti útgjaldaliður íslenskar ríkisins séu vextir. Ríkið sé að borga um 111 milljarða í vexti á hverju ári. Þetta væru 20-30 milljarðar ef hér væri „alvöru gjaldmiðill“.
Thomas skorar því á hagsmunasamtök atvinnurekenda, launþega og neytenda að berjast gegn krónunni. Nefnir Thomas sem dæmi jómfrúrræðu Elvu Daggar Sigurðardóttur, þingmanns Viðreisnar, á Alþingi á fimmtudaginn. Þar rakti Elva að nágrannaþjóðir okkar geti boðið heimilum landsins upp á miklu lægri vexti. Smæð Íslands þýði ekki að hér þurfi að vera svimandi hátt matarverð og háir vextir. Við séum föst í rússíbanareið vaxta og verðbólgu, en með nýjum gjaldmiðli gætum við fengið stöðugleika.
Thomas rekur að í Danmörku til dæmis geti ungt fólk keypt sér heimili með því að taka lán til 20 ára. Svo þurfi bara ekkert meira að spá í þessu láni, annað en að borga af því. Hér á landi sé staðan önnur. Hér þurfi fólk að hafa stöðugar áhyggjur. Þarf að endurfjármagna? Þarf að festa vexti? Þarft að taka óverðtryggt eða verðtryggt? Hvað ætli vísitalan sé að hækka mikið í þessum mánuði og hvaða hefur lánið hækkað vegna verðbólgu? Thomas spyr því ráðamenn þjóðarinnar:
„Ætlið þið að bjóða fólki upp á þetta áfram?“
Nú sé kominn tími til að þjóðin fái að tjá sig um málið í gegnum þjóðaratkvæðisgreiðslu um ESB-aðild. Thomas segist sannfærður um að Ísland muni ganga í ESB á næstu átta árunum og tekur fram að hann hafi áður reynst sannspár, en hann hafi árið 1981 spáð því að Berlínarmúrinn yrði felldur innan áratugar.
Hafi fólk áhyggjur af auðlindum Íslands bendir Thomas á að ESB kæri sig ekkert um þær. ESB ríki eigi sínar eigin auðlindir og hafi fengið að eiga þær í friði. Hér hafi samningar um aðild verið langt komnir áður en bremsurnar voru settar á og í EES-samningi sé sérákvæði sem fjalli um sjávarútveginn og líklega ekkert því til fyrirstöðu að fá sambærilegt ákvæði í samningi um fulla aðild.
Thomas rekur að Ísland sé líka í sérflokki hvað varðar út- og innflutning m.v. hlutfall þjóðarframleiðslu. Fáar þjóðir séu þar jafn afkastamiklar og við, miðað við höfðatölu. En í þessum viðskiptum séum við að tapa peningum á krónunni.
Viðskiptin okkar á alþjóðavísu felist í því að við séum að kaupa í erlendri mynt eða fá borgað í erlendri mynt. Þessum gjaldmiðli þarf svo að skipta yfir í krónur eða krónum yfir í erlendan gjaldmiðil og þetta kosti töluvert.
„Við erum að tala um tugi milljarða í kostnað við að skipta gjaldeyri.“
Þegar Thomas var sjálfur í fyrirtækjarekstri segist hann hafa hreinlega gefist upp á þessu kjaftæði. Hann hafi sent reikninga í evrum, fengið borgað í evrum og svo sjálfur borgað með evrum. Þarna hafi bankinn ekki hrifsað til sín krónu í skiptikostnað. Með þessu móti gat hann lækkað verð hjá sér um 5-10 prósent.
Neytendur geti svo til dæmis fundið fyrir þessu þegar þeir versla erlendis. Þeir fletti upp að gengið á erlendu myntinni gagnvart krónu sé kannski 150, en svo þegar viðskiptin eru bókuð í kerfi bankanna er gengið í raun 160 út af þessum skiptikostnaði.
„Það er verið að taa af okkur gríðarlegan pening“
Hlusta má á viðtalið við Thomas og fyrri þætti á tyr.is eða á Spotify.
Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.