fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

„Sagt er að ein mynd segi meira en þúsund orð“ sagði dómari um djammið með mömmu sem fór úr böndum við Petersen svítuna

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 3. október 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona á þrítugsaldri hefur verið dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás sem átti sér stað í júní árið 2021 við gatnamót Hverfisgötu og Ingólfsstræti. Var konan fundin sek um að hafa rekið annarri konu, brotaþola, högg í andlitið með þeim afleiðingum að það fossblæddi í nefi brotaþola.

Atvikum er ítarlega lýst í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem féll í dag. Konan, ákærða í málinu, var sökuð um að hafa slegið brotaþola í andlitið með vínflösku. Meðal sönnunargagna var upptaka úr eftirlitsmyndavélum sem varpaði góðu ljósi á atburði. Þar sást ákærða ganga að brotaþola við anddyri Petersen svítunnar og eiga við hana orðastað. Vinkona ákærðu veittist líka að brotaþola, ýtti við henni og sparkaði svo í átt að annarri stúlku. Nokkru síðar sást ákærða slá farsíma úr höndum brotaþola og hófst eftir það rifrildi. Brotaþoli endaði með að skvetta drykk í andlit vinkonu ákærðu og gekk svo burt.

Ákærða elti brotaþola ýtti við henni og sneri svo aftur að Petersen svítunni. Svo sést hún aftur hlaupa í átt að brotaþola og veitast að henni. Hún rak henni högg í andlitið með hægri hendinni en óljóst var hvort hún hafi slegið með hnúa eða vínflöskunni.

Fram kom að ákærða hafi verið úti að skemmta sér með vinkonu og móður sinni. Hafi hún orðið hálf fúl út í mömmu sína sem var að gera sér dælt við mun yngri mann. Vildi ákærða ekki kannast við að hafa ráðist á brotaþola og lýsti atvikum með öðrum hætti heldur en upptökur eftirlitsmyndavéla sýndu.

Ekki fræðilegur möguleiki

„Ég barði hana aldrei með flöskunni; ég augljóslega ýtti í hana, ég barði hana aldrei með flöskunni; það er ekki fræðilegur möguleiki,“ sagði ákærða við rekstur málsins.

Ákærða sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis en engu síður muna mjög vel eftir atvikum. Hún hafi komið út af Petersen svítunni og séð þá vinkonu sína í rifrildi við ókunnar stelpur. Hafi önnur sú ókunna tekið upp síma til að taka upp deilurnar og þá hafi ákærða slegið símann í jörðina. Ákærða sagðist þó ekkert hafa gert á hlut brotaþola annað en að ýta aðeins við henni. Hún hafi ekki elt hana að Ingólfsstræti og slegið hana með flösku.

Þegar upptakan var borin undir ákærðu breytti hún sögu sinni og sagðist vissulega hafa elt brotaþola, en hún hafi ekki slegið til hennar.

Brotaþoli sagðist aðeins hafa drukkið nokkra drykki. Hún hafi verið á leiðinni út af Petersen með símann á lofti að taka upp myndband fyrir Snapchat. Hún hafi ekki beint símanum sérstaklega að ákærðu og félögum. Síðan hafi síminn verið sleginn úr höndum hennar og svo hafi hún fengið högg í andlitið. Hún viðurkenndi þó að hún gæti verið að muna rangt eftir atvikum, enda langt um liðið. Hún sagðist ekki geta útilokað að hafa verið slegin með krepptum hnefa en hún væri þó 99 prósent viss um að þarna hefði flösku verið beitt. Hún væri enn með ör á nefi og með „dauða tönn“ eftir höggið.

Rannsókn gagnrýnd

Undir rekstri málsins var rannsókn lögreglu töluvert gagnrýnd. Þegar ákærða réðst á brotaþola hafi ónefnd kona hlaupið til og eins rætt við lögreglu. Nafn hennar og upplýsingar hafi þó ekki verið skráð svo ekki var hægt að leiða hana fram sem vitni, sem hefði þó getað varpað betra ljósi á atvik. Eins hafi lögregla ítrekað afþakkað upptökur úr síma brotaþola sem voru tekin í þessum átökum. Verjandi ákærðu sagði málið í raun meira og minna órannskaða og margt á huldu um mikilvæg atriði. Lögregla hefði ekkert hirt um áðurnefndar upptökur, ekki tekið skýrslu af vinkonu ákærðu og vinkonu brotaþola sem þó voru á vettvangi. Taldi verjandinn allt eins mögulegt að það hafi verið vinkona ákærðu sem í raun framdi líkamsárásina.

Héraðssaksóknari hafi fengið rannsóknargögn máls í hendur í júlí á síðasta ári en þá sent málið til frekari rannsóknar. Engu að síður hafi saksóknari fengið sömu rannsóknargögn í hendurnar, óbreytt, í febrúar á þessu ári. Taldi verjandi slíka annmarka á rannsókn og sönnunarfærslu að óhjákvæmilegt væri að sýkna.

Dómari tók fram að upptökur frá kvöldinu gæfu nokkuð skýra mynd, nema hvað að ekki væri hægt að fullyrða að flöskunni hafi verið beitt. Því væri um almenna líkamsárás að ræða en ekki alvarlega árás með hættulegu vopni.

Mynd segir meira en þúsund orð

Dómari rakti hvað finna mætti á upptökum. Þar sæist brotaþoli með farsíma á lofti sem væri greinilega beint að ákærðu og félögum. Ákærða hafi svo slegið símann með afli úr höndum brotaþola og svo farið aftur til félaga sinna. Brotaþoli hafi svo komið að hópnum og rætt við vinkonu ákærðu og við það verði hrint. Brotaþoli hafi svo húðskammað ákærðu og bent á farsímann sinn. Brotaþoli hafi svo átt orðaskipti við vinkonu ákærðu og skvett drykk framan í hana og strunsað burt án þess að líta um öxl. Hún hafi ekki verið með áverka á andliti þegar hún gekk í burtu.

Vinkona ákærðu og vinkona brotaþola hafi svo slegist en á sama tíma hafi ákærða hlaupið á eftir brotaþola, með flöskuna í hendinni. Hún hafi hrint brotaþola sem hafi þó haldið för sinni áfram. Ákærða hafi svo snúið aftur að sínu fólki, nálgast móður sína, en svo snúið við og rokið í átt að brotaþola, með smá viðkomu við ónefndan karlmann sem hún hafi slegið til. Síðan hafi ákærða komið að brotaþola veist að henni og rekið henni eitt högg í höfuð. Þetta hafi átt sér stað skammt frá lögreglubifreið, enda kom lögreglan fljótt á vettvang.

„Sagt er að ein mynd segi meira en þúsund orð,“ sagði dómari og tók fram að þetta spakmæli ætti allskotar við í máli þessu. Breytti þar engu þó að vitni hafi vantað.

Var konan því sakfelld og tók dómari fram að árásin hafi verið tilefnislaus og til marks um einbeittan brotavilja. Hún hafi því ekki átt sér neinar málsbætur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum
Fréttir
Í gær

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“